139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér er það þvert um geð að tala annars vegar um stóra málið og hins vegar um litla málið en engu að síður er það mál sem við ræðum núna umfangsmeira og stærra í sniðum, enda er gerð grundvallarbreyting, kerfisbreyting á því annars ágæta fyrirkomulagi sem við höfum í sjávarútvegi, um mikla hagsmuni er að ræða.

Ég fékk það fram í umræðu um fyrra málið og dró það fram að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, hefðu ekki séð sóma sinn í því að taka til máls í umræðu um það. Þá var mér sagt: Bíðum við, þau munu vera í salnum og ræða þessi mál þegar síðara málið kemur til umræðu. Nú erum við að ræða það og ekki er einn vinstri grænn á mælendaskránni sem tengist þessu máli. Ég vil því spyrja hæstv. forseta: Hvað líður því að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hlýði á ræður þingmanna í þessu gríðarlega mikilvæga máli?