139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmenn bentu á á undan mér flutti ég síðast ræðu um þessi mál eftir miðnætti á uppstigningardag en ég hafði sérstaklega beðið virðulegan forseta að leyfa mér að halda þá ræðu að degi til þegar hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra höfðu tækifæri til að fylgjast með þeim athugasemdum sem ég sá ástæðu til að gera við þessi frumvörp.

Nú virðast hæstv. ráðherrar enn ekki ætla að fylgjast með umræðum, sem er mjög óheppilegt, vegna þess að ég hafði hugsað mér að endurtaka nokkur af þeim atriðum sem ég benti á eftir miðnætti á uppstigningardag til þess einmitt að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra gætu fylgst með þeim og brugðist við. Ég hef auðvitað engin viðbrögð fengið enn þá við þeim athugasemdum sem ég gerði þá um nóttina. Nú bið ég virðulegan forseta að hlutast til um það að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra og helst hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra (Forseti hringir.) hafi tækifæri til að fylgjast með athugasemdum mínum.