139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:12]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eftir miðnætti á uppstigningardag hlýtur að vera aðfaranótt uppstigningardagsins sjálfs vegna þess að ef það væri eftir miðnætti eftir uppstigningardag þá væri ekki til neitt eftir miðnætti á uppstigningardag. Ég geri athugasemd við athugasemd virðulegs forseta um að ég hafi ekki verið að ræða málið á uppstigningardag. Þetta var eftir miðnætti þegar uppstigningardagur, sólarhringur uppstigningardags var hafinn. Ástæðan fyrir því að ég geri athugasemd við þetta er að mér, og fleiri þingmönnum sem ræddu þetta mál á sínum tíma, þótti þetta mjög óviðeigandi. Samið hafði verið um að þingfundur gæti staðið lengur en þingsköp gerðu ráð fyrir en þó ekki lengur en til miðnættis. Það hvarflaði ekki að nokkrum manni að ríkisstjórnin væri svo forhert að hún léti umræður um þetta mál ganga inn í uppstigningardaginn án þess að nokkur ráðherra, annar en hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefði fyrir því að fylgjast með umræðunum.