139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:29]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum prýðilega ræðu, ég var sammála honum um margt í fyrri hlutanum. Fyrir það fyrsta vildi ég benda honum á, af því að hann talaði nokkuð háðulega um fyrningu í tiltekna potta, að í sjávarútvegsálitum Framsóknarflokksins eru lagðir til tveir pottar, annars vegar nýtingarsamningur til 20 ára, sem byggt er á sáttaskýrslunni, og hins vegar pottur 2, þar sem úthlutað er í fjóra flokka, og stofnstærðaraukning og alls konar tilfærslur lagðar þar til.

Ég vildi taka undir með hv. þingmanni að ég held að leiðin um tímabundna nýtingarsamninginn, sem er lögð til í sáttaskýrslunni, skapi ákveðna vissu fyrir útgerðina og sé sú leið sem á að fara og byggja á. Efasemdir mínar, eins og ég tók eftir hjá hv. þingmanni, lúta að hinum pólitísku pottum, að stjórnmálamenn, sveitarstjórnarmenn og ráðherrar, þeir sem fara með málefni sjávarútvegs á hverjum tíma, úthluti eftir félagslegum og byggðalegum sjónarmiðum. Ég hef miklar efasemdir um það líka og ég tel að ef fyrna á lítinn hluta af aukningu hvers árs í pott eigi að úthluta úr honum eingöngu á markaðslegum forsendum þannig að menn bjóði einfaldlega í þann pott en stjórnmálamenn komi þar hvergi að. Það tel ég mesta agnúann og skafankann á þeim frumvörpum sem við ræðum í dag en tek undir leið Framsóknarflokksins og sáttanefndarinnar sem hér er byggt á.

Ég er ósammála hv. þingmanni um að hér sé ekki byggt á sáttaskýrslunni af því að það er grunnurinn sem farið er af stað með sem eru tímabundnir nýtingarsamningar sem skapa miklu meiri vissu en fyrningarleiðin svokallaða. Það er hins vegar útfærslan sem menn deila um, sem eru pottarnir. Framsókn leggur til fjóra potta, hér eru lagðir til þrír eða fjórir pottar af annarri tegund og efasemdir mínar lúta að þeim. Hins vegar er mesta óvissan af þessu öllu, sem fylgir núverandi fyrirkomulagi og óheftu framsali, váin sem vofir yfir byggðunum og fer eftir velvilja þeirra sem eiga heimildirnar í dag.

Þetta eru þau sjónarmið sem ég vildi glöggva mig á hjá hv. þingmanni eftir hans ræðu. Ræðan var mjög fín og málefnaleg og góð; ég vildi einfaldlega fara sérstaklega í þessi atriði.