139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum sammála um eitt og annað hvað markmið varðar. Við erum hins vegar augljóslega mjög ósammála um leiðirnar, þ.e. ef hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er alvara með þeim frumvörpum sem hann hefur lagt fram í þinginu. Ég er ekki viss um að svo sé. Ég hef grun um að hæstv. ráðherra viti að þetta sé ekki leiðin. Ég hef grun um að ýmsir menn sem kunna að reikna í ráðuneytinu séu búnir að finna það út og aðrir þeir sem ég gef mér að hæstv. ráðherra hafi spurt álits. (Gripið fram í.) Ég ætla hæstv. ráðherra það ekki að taka þessi frumvörp sín alvarlega.

Það sem er verst við þetta er að hæstv. ráðherra skuli láta, ef svo má segja, nota sig og taka þátt í þeim leik hæstv. forsætisráðherra að gera sjávarútvegsmálin að deiluefni til að dreifa athyglinni frá öðrum málum vitandi að ekki er meiri hluti fyrir frumvörpunum og ætlandi sér sjálfsagt ekki að koma þeim í gegn heldur aðeins að skapa umræðuna og taka þar með þátt í leik hæstv. forsætisráðherra.