139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Út af orðum sem hafa fallið í þessari umræðu og áður fyrr um starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins vil ég geta þess að ég hef fulla trú á þeim, tel að þeir séu vandvirkir og ábyrgir og vinni sín störf af trúmennsku.

Ég var líka að mestu leyti ánægður með ræðu hv. þingmanns, þó ekki niðurlag hennar þar sem hann gerði því skóna að þetta frumvarp væri sett fram til þess eins að draga athygli frá einhverju öðru í fari eða háttsemi ríkisstjórnarinnar. Hv. þingmaður sagði að kvótakerfið hefði þjónað okkur vel og ég er honum algjörlega sammála um það, það eru ýmsir þættir í því sem við þurfum að skoða vel áður en við breytum eins og t.d. framsalið. Ég tel að framsalið sé eitt af því sem hafi skipt miklu máli varðandi hagræðingu.

Kjarni málsins er sá sem hv. þingmaður orðaði með þessum hætti: Það er skylda okkar að reyna að ná sátt um þessi mál. Nú þarf hann ekki að vera hissa á því að óvissa ríki á umbreytingaskeiði en því þarf að ljúka sem fyrst. Er þá hægt að ná samkomulagi? Ég held það.

Eitt af því sem hv. þingmaður skautaði ansi létt yfir í ræðu sinni var stefna Framsóknarflokksins. Nú hef ég kynnt mér hana, mér finnst hún góð, ég hef sagt það hér áður í þessari umræðu. Hún byggist í fyrsta lagi á því að breyta stjórnarskránni og taka þar upp sameignarákvæði, ég er sammála því. Hún byggist í öðru lagi á því að setja upp nýtingarsamninga til langs tíma. Ég geri engar athugasemdir við það fyrirkomulag hjá Framsóknarflokknum þó að það sé með örlítið öðrum hætti en í frumvarpinu. Það eru tveir pottar, annar byggðatengdur, hinn tengist nýliðun og nýsköpun. Síðan er strandveiðiþátturinn miklu betur útfærður í stefnu Framsóknarflokksins en hjá ríkisstjórninni.

Ég dreg þá ályktun af þessu að það sé mjög gildur samkomulagsmöguleiki millum ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins á grundvelli þeirra tillagna sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á landsfundi sínum. Hv. þingmaður þarf ekki að svara þessu frekar en hann vill en ég vildi koma þessu sjónarmiði á (Forseti hringir.) framfæri í þessari umræðu.