139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

827. mál
[12:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég þigg boð hæstv. utanríkisráðherra. Ég held að við ættum að hefja vinnu að sátt í sjávarútvegsmálum á grundvelli stefnu Framsóknarflokksins. Að vísu verður að fylgja sá fyrirvari að í túlkun sinni á stefnu flokksins hefur hæstv. utanríkisráðherra oft leyft sér að seilast nokkuð langt. Ef við líkjum þessu við söfnuði og Framsóknarflokkurinn er söfnuður um stefnu flokksins fer hæstv. utanríkisráðherra fyrir ákveðnum sértrúarsöfnuði gagnvart stefnunni og gerir það reyndar ágætlega. Ég held að hann sé jafnvel að fá nokkra þingmenn eigin flokks til fylgilags við sig hvað það varðar, að mynda sértrúarframsóknarsöfnuð. Það er allt í lagi, það er þó skárra en að halda sig bara við óbreytta stefnu jafnaðarmanna.

Til að gera langa sögu stutta, frú forseti, þigg ég boð hæstv. utanríkisráðherra.