139. löggjafarþing — 141. fundur,  6. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

839. mál
[15:01]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp Hreyfingarinnar til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ég ætla að byrja á því að óska Hreyfingunni til hamingju með að koma fram með heildstætt frumvarp um þetta gríðarlega mikla hagsmunamál okkar Íslendinga og hrósa þeim fyrir gott ímyndunarafl varðandi útlit þessara laga.

Mig langar í meginatriðum að tala um þrjú atriði sem koma fram í frumvarpinu sem ég sé nokkra annmarka á. Fyrst ber að nefna að í 2. gr. er talað um að heimildir til að veiða úr nytjastofnum við Ísland séu á forræði íslenskra sveitarfélaga. Og eins og hv. þm. Þór Saari sagði áðan er hann með það göfuga markmið að þau sjávarútvegspláss, ef getum við orðað það sem svo, sem finnast hringinn í kringum landið, geti áfram stundað útgerð og notið auðlindarinnar. En það er nokkrum annmörkum háð vegna þess að það eru ekki öll sveitarfélög í landinu sem geta stundað sjávarútveg yfirleitt. Þá er ég að hugsa um sveitarfélög eins og Egilsstaði, Selfoss, Hveragerði, Flúðir, Hellu, Hvolsvöll og fleiri sveitarfélög.

Ef sá skilningur minn er réttur brýtur það jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, 65. gr. Ég hefði gaman af að heyra frekari útfærslu á því við betra tækifæri, ekkert endilega núna.

Í öðru lagi er í c-lið 2. gr. talað um veiðar á afla á grundvelli aflaheimilda, að heimill sé meðafli úr öðrum tegundum allt að 10% af heildarafla hverrar veiðiferðar. Þá verður mér hugsað til stóru fjölveiðiskipanna. Segjum sem svo að skip eins og Vilhelm Þorsteinsson, Birtingur á Neskaupstað eða Aðalsteinn Jónsson á Eskifirði eða eitthvert af þessum stóru skipum komi með 2.700 tonn af loðnu, er þá meiningin að þau komi með 270 tonn af þorski með? Það verður ekki annað skilið af þessu ákvæði. Þá sé ég fyrir mér að erfitt verði að stjórna auðlindinni ef svo á að vera.

Að síðustu langar mig til að tala aðeins um 5. gr., um hinn svokallaða kvótaskuldasjóð þar sem taka á skuldir sem sjávarútvegsfyrirtæki bera sem sannanlega eru til komnar vegna kaupa eða leigu á aflaheimildum. Það á að taka þær skuldir af útgerðunum og setja í svokallaðan kvótaskuldasjóð þar sem kröfur lánardrottna færast þá frá útgerðunum yfir á þennan kvótaskuldasjóð. Kröfurnar munu ekki bera vexti, það kemur reyndar ekki fram hvort þær séu verðtryggðar eða hvort þær muni einfaldlega hverfa í verðbólgu á tiltölulega skömmum tíma. En þar sem hv. þingmaður sagði að kröfuhafar fengju höfuðstól til baka en enga vexti er hægt að álykta sem svo að það hafi bara gleymst að gera ráð fyrir því að það væri verðtryggt, vegna þess að ef það er ekki verðtryggt fá þeir aldrei höfuðstólinn til baka.

Þá er sagt að kröfuhafar muni fá höfuðstól greiddan til baka með því að 5% af söluverðmæti afla á hverju ári verði sett inn í þennan sjóð þannig að það er þá í raun skattur á alla útgerð í landinu sem yrði notaður til að borga kröfuhöfum til baka. Fimm prósent af söluverðmæti eru um 6,5–7 milljarðar, sem þýðir að ef skuldir sem eru sannanlega til komnar vegna kaupa og leigu á aflaheimildum eru 250 milljarðar eins og viðskiptabankarnir hafa metið, og 5% skattur, er endurgreiðslutíminn 40 ár. Ef það er hins vegar meira, segjum 450 milljarðar, eru það 67 ár. Það væri fróðlegt að vita hvort frumvarpssmiðir hafi hugsað út í að það mundi kippa út öllu eigin fé út úr bankakerfinu. Það gerðist þá eitthvað; bankarnir færu á hausinn, ríkið mundi setja meira eigið fé inn í bankana eða núverandi eigendur, sem er annars vegar ríkið í tilfelli Landsbankans og hins vegar kröfuhafar í tilfelli stóru viðskiptabankanna tveggja, og spurning hvort líklegt sé að þeir muni gera það.

Jafnframt ber að benda á að það væri tvímælalaust brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem þar væri verið að skerða eignarrétt fjármálafyrirtækjanna. Þau mundu sjálfsagt ekki una við það nema ríkið mundi bæta þeim það upp á einhvern hátt og það er spurning hvar ríkið ætti að fá þá peninga.

Að lokum langar mig til að minnast örlítið á að þingmaðurinn hélt því margsinnis fram að hagstæðasta niðurstaðan fengist ávallt á uppboðum. Þá minni ég á 3G-uppboðin sem fóru fram í Evrópu fyrir um tíu árum síðan, það var svo langt frá því að þau gæfu hagstæða niðurstöðu. Þau voru bæði vonarpeningur fyrir ríkissjóði landanna sem buðu upp þessar heimildir sem síðan þurfti að afskrifa, og fyrir fyrirtækin sem ekki gátu staðið við uppboðin.

Mig langar að lokum að óska Hreyfingunni til hamingju með þetta frumvarp um leið og ég vona að það verði aldrei að lögum.