139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

almenningsbókasöfn.

580. mál
[15:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntamálanefnd, sú sem hér stendur og hv. þm. Íris Róbertsdóttir, erum á þessu framhaldsnefndaráliti og teljum til bóta þær breytingar sem menntamálanefnd setur hér fram. Þær eru meðal annars komnar til vegna athugasemda frá umboðsmanni Alþingis. Þó er vert að benda á eitt sem var rætt innan nefndarinnar, að ólögráða og ófjárráða einstaklingar, börn í grunnskólum sem fá oft aðgangskort að bókasöfnum, falla sjálfkrafa undir þessar reglur og væri þá vert að beina þeim almennu tilmælum til skólasafna sem og almenningsbókasafna að stjörnumerkja skírteini nemandans og að forráðamenn skóla sem útbúa slík skírteini geri foreldrum viðvart á heimasíðu skólans, í skólareglum eða öðru þess háttar um að nemandi hafi fengið slíkt kort. Ekkert í þessum reglum okkar hér tekur á aldri og í raun þarf með einhverjum hætti að tryggja að forráðamönnum nemenda undir 18 ára aldri, sem hvorki eru fjárráða né lögráða, sé gert ljóst að þessar reglur gildi á hverju bókasafni fyrir sig.

Að öðru leyti er ekki öllu meira um þessi lög að segja. Þau eru til bóta og skýra það sem þarf að skýra. Eins og umboðsmaður Alþingis gerði nefndinni grein fyrir eru gjaldtökuheimildir og þvingunarúrræði eins og þessi af hinu góða, virðulegur forseti.