139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

námsstyrkir.

734. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti menntamálanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um námsstyrki.

Tilgangur þeirra laga er einkum að veita námsstyrki til að jafna fjárhagslegan aðstöðumun framhaldsskólanema sem helgast af búsetu eða efnaleysi. Námsstyrkir eru fyrst og fremst af tvennum toga, annars vegar dvalarstyrkir og hins vegar styrkir til skólaaksturs, og er með þessu frumvarpi ætlað að auka jafnræði einstaklinga til náms, hvort sem þeir eru á framhaldsskóla- eða háskólastigi, með áherslu á að koma til móts við nemendur sem ekki uppfylla skilyrði um lánveitingar úr Lánasjóði íslenskra námsmanna. Dæmi eru um að nemendur sem ekki uppfylla skilyrði til töku námslána hafi misst námsstyrk við að hefja nám í háskóla áður en þeir hafa náð 18 ára aldri. Til að mæta slíku ójafnræði er ætlunin að víkka út gildissvið laganna þannig að þau nái einnig til háskólanáms en ekki einungis náms í framhaldsskólum. Meðal helstu breytinga er að háskólanemar yngri en 18 ára sem ekki eru fjárráða og eiga þar af leiðandi ekki kost á námsláni geta nú sótt um námsstyrki verði þetta frumvarp að lögum. Þá er einnig leitast við að jafna aðstöðu þeirra námsmanna sem stunda nám erlendis í sérhæfðum skólum sem ekki telst lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna en svo háttar til að ekki er hægt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili viðkomandi námsmanns hér á landi. Þetta ákvæði snertir einkum afreksfólk í íþróttum og nemendur í listdansi á framhaldsskólastigi.

Sú breyting er einnig gerð á ákvæði um námsstyrkjanefnd í frumvarpinu að nefndarmönnum er fækkað um tvo, úr fimm í þrjá. Með þeirri breytingu verður nefndin skipuð tveimur fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis án tilnefningar og einum fulltrúa sem er skipaður eftir tilnefningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin fjallaði sérstaklega um þetta atriði og leggur áherslu á það í sínu áliti að annar fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra verði fulltrúi nemenda þannig að nemendur missi ekki úr nefndinni þann fulltrúa sem þeir hafa haft í námsstyrkjanefnd.

Frumvarpið tekur fyrst og fremst til úthlutunarreglna námsstyrkja. Nefndin tekur undir með þeim umsagnaraðilum sem segja að hér sé stigið skref í átt að auknu jafnrétti til náms á Íslandi sem er mikilvæg forsenda velferðar í samfélaginu. Nefndin leggur áherslu á að hugað verði að heildarendurskoðun á opinberri námsaðstoð á Íslandi í þeirri vinnu sem fram undan er við endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna í því augnamiði að tryggja jafnræði milli nemenda á mismunandi skólastigum.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með tilteknum einföldum formbreytingum sem fram koma í nefndaráliti.

Öll menntamálanefnd skrifar undir þetta álit að undanskildum einum nefndarmanni sem var fjarverandi.