139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

Landsbókasafn -- Háskólabókasafn.

760. mál
[15:49]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum nefndarálit hv. menntamálanefndar um frumvarp til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Eins og fram kom í máli hv. þm. Skúla Helgasonar, formanns menntamálanefndar, er enginn ágreiningur í nefndinni um frumvarpið eins og það er nú.

Það sem skiptir kannski meginmáli er að þegar farið var í heildarendurskoðun á gildandi löggjöf um Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn í þinginu 2007–2009 komu æðimargar athugasemdir fram um það frumvarp sem ljóst er að menntamálaráðuneytið fór vel yfir og skoðaði og tók tillit til ýmissa þátta sem þar komu fram. Það er af hinu góða og gerði það að verkum að þetta frumvarp var lagað að þeim athugasemdum og er því meiri sátt um það.

Það sem skiptir kannski mestu máli í breytingum frá því sem var í frumvarpinu sem lagt var fram á þinginu 2007–2009 er að staða safnsins sem rannsóknarbókasafns er styrkt. Það skiptir ekki bara máli fyrir safnið sjálft heldur fyrir þá fjölmörgu vísinda- og fræðimenn sem hér starfa og geta nýtt sér þekkinguna, bókakostinn og þau skjöl og söfn sem fyrirfinnast þar. Með þessu er lögð áhersla á tvöfalt hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns sem íslenskt þjóðbókasafn og jafnframt rannsóknarbókasafn.

Eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Skúli Helgason, kom inn á var umræða um bæði stjórn safnsins sem og hæfi landsbókavarðar. Ég og við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntamálanefnd fögnum því að farið sé eins að í þessari stofnun og verið er að gera í flestum öðrum ríkisstofnunum, að sömu verklagsákvæði gildi um hvaða stjórn ríkisstofnana sem er. Það er líka verið að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnananna og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir er varða stjórnun og starfsmannahald jafnframt — og ég ítreka — jafnframt því sem gerðar eru auknar kröfur til þeirra og ábyrgð þeirra aukin. Þetta skiptir máli, frú forseti. Þetta er einföldun og samræming sem er góð innan ríkisstofnana. Með þessu eru gerðar þær almennu kröfur til forstöðumanna menningarstofnana sem hafa verið í lögum. Ég fagna því að við erum að setja þetta í lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Jafnframt er ánægjulegt að sjá í þessu frumvarpi að tekið er tillit til þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á háskólasamfélaginu frá gildistöku núgildandi laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og að lögð skuli vera aukin áhersla á samvinnu og samstarf háskólanna. Það er rökrétt þar sem Háskóli Íslands er 100 ára á þessu ári og elsta háskólastofnun landsins að háskólasafnið gæti þess að vera í forustu og auki samstarf við aðra skóla.

Frú forseti. Það er ekki mikið fleira um þetta segja. Ákveðnar breytingar eru lagðar til sem nefndin er sammála um. Að lokum verður að segjast eins og er að það er ánægjulegt að vera fulltrúi í menntamálanefnd þar sem gengið er til verka óháð pólitískum flokkum og horft á verkefnin sem slík og hvernig nefndin geti lagað frumvörp og betrumbætt til að lögin sem við samþykkjum héðan frá Alþingi séu sem best úr garði gerð.