139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

449. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Til umfjöllunar er þingsályktunartillaga um menntun og atvinnusköpun ungs fólks. Menntamálanefnd hefur fjallað um þetta mál og leitað eftir umsögnum víðs vegar að og fengið ýmsar frá aðilum vinnumarkaðarins, skólasamfélaginu, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Samtökum atvinnulífsins og fleirum auk þess sem nefndin óskaði sérstaklega eftir áliti félags- og tryggingamálanefndar á tillögunni. Ástæðan var ekki síst sú að eitt meginmarkmið tillögunnar, eins og hún var lögð fram, var að bregðast við því mikla atvinnuleysi sem hefur verið í landinu meðal ungs fólks á aldrinum 16–24 ára. Mörgum hefur sviðið að sjá að verulega stór hluti þeirra ungu atvinnuleitenda sem þurfa á aðstoð að halda í samfélaginu er einungis með grunnskólapróf, í kringum 75% hafa ekki tekið önnur próf en grunnskólapróf. Engum blöðum er um það að fletta að þetta er meginskýringin á því hve hátt atvinnuleysið er í þessum aldurshópi.

Með tillögunni var ætlunin að móta heildstæða aðgerðaáætlun sem hefði þann þríþætta tilgang að takast á við og vinna bug á langtímaatvinnuleysi ungs fólks, í öðru lagi að efla iðn- og tæknimenntun í samfélaginu og í þriðja lagi að svara eftirspurn helstu vaxtargreina atvinnulífsins eftir vinnuafli með slíka menntun.

Umsagnaraðilar eru að mestu jákvæðir í garð tillögunnar, styðja framgang hennar og benda á mikla þörf fyrir aukin námstækifæri fyrir ungt fólk. Nú er þess að geta, og það er í sjálfu sér mikið gleðiefni, að góð hreyfing hefur komist á þau mál sem lúta að menntunarúrræðum fyrir ungt fólk síðan þessi tillaga var upphaflega lögð fram, þ.e. í kringum áramótin, sem birtist í því að ríkisstjórnin hóf í samráði við aðila vinnumarkaðarins sérstakt átak sem ber heitið Nám er vinnandi vegur og hefur ríkisstjórnin samþykkt að verja til þess 7 milljörðum kr. á næstu þremur árum. Átakið felur í stuttu máli í sér að atvinnuleitendur eru hvattir til að sækja sér menntun í framhaldsskólum og munu framhaldsskólar strax í haust taka inn alla umsækjendur undir 25 ára aldri sem uppfylla tiltekin skilyrði ásamt eldri umsækjendum sem lokið hafa raunfærnimati á þessu vori. Ýmislegt fleira kemur fram í þessu átaki, t.d. er stofnaður sérstakur þróunarsjóður til að efla starfstengt nám, samstarf skóla og fyrirtækja um slíkt nám er aukið, vinnustaðanámssjóður er settur á fót og fær til þess sérstaka fjárveitingu til að auðvelda nemendum í starfsnámi að ljúka hagnýtu námi með starfsþjálfun á vinnustað og svo mætti áfram telja. Menntamálanefnd leggur sérstaka áherslu á að samhliða þessari aðgerðaáætlun verði tryggt aðgengi framhaldsskólanemenda frá 16 ára aldri að vinnustaðanámi, samanber 28. gr. framhaldsskólalaga frá 2008.

Nefndin telur að með átakinu Nám er vinnandi vegur sé að verulegu leyti komið til móts við það efni tillögunnar sem lýtur að því að fjölga námsúrræðum fyrir unga atvinnuleitendur. Hins vegar stendur eftir að full þörf er á nánari samþættingu á mennta- og atvinnustefnu stjórnvalda, þ.e. að þessi tvö kerfi, menntakerfið annars vegar og hins vegar málefni vinnumarkaðarins, séu í betra samræmi hvort við annað og þá með sérstakri áherslu á eflingu starfsnáms í því skyni að fjölga atvinnutækifærum ungs fólks í ýmsum helstu vaxtargreinum atvinnulífsins. Fyrir liggja rannsóknir, m.a. könnun Samtaka iðnaðarins frá því um áramótin, sem staðfesta að mikil eftirspurn er eftir starfsfólki með iðn- og tæknimenntun, sem menntakerfið hefur ekki haft undan að sinna. Nefndin leggur því til breytingar á texta tillögunnar þar að lútandi þannig að áhersla verði lögð á að samþætta mennta- og atvinnustefnu stjórnvalda með því að greina menntunarþörf atvinnulífsins, auka vægi starfsnáms í íslensku menntakerfi og þróa nýjar fjölbreyttar starfsnámsleiðir. Nefndin leggur til breytingar varðandi skipun þess starfshóps sem móti umrædda aðgerðaáætlun, að hún verði mótuð í samráði við iðnaðarráðuneytið og Samtök atvinnulífsins, og nefndin breytir sömuleiðis tímamörkum þannig að stefnt verði að því að skila niðurstöðum fyrir 1. desember 2011.

Það er með þetta nefndarálit eins og þrjú hin fyrri sem ég hef kynnt í dag að öll menntamálanefnd stendur að baki álitinu. Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir þann góða anda sem hefur verið í nefndinni við störf hennar í þessum málum eins og reyndar mörgum fleiri í vetur. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um að í nefndinni hafi menn hvergi haldið aftur af sér við að vinna vel að einstökum málum þvert á flokka og vekur það með manni bjartsýni um að við séum að sigla inn í nýja og bjartari tíma í þeim efnum.