139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[16:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu og umhyggju hans fyrir ríkissjóði sem ég reyni að hafa líka. Hann segir að staða öryrkja og aldraðra hafi skerst eftir hrunið og ég vil því spyrja: Er það ekki aðallega vegna þess að fjármagnstekjur voru teknar inn að fullu í staðinn fyrir að þær voru áður metnar að hálfu? Röksemdir fyrir því að meta þær að hálfu voru þær að fjármagnstekjur séu að miklum hluta froða, þ.e. verðbætur eða áhætta í hlutabréfum eins og komið hefur illilega í ljós eða kostnaður eins og í húsaleigu. Þetta voru rökin fyrir því á sínum tíma að hafa skatt á fjármagnstekjurnar helmingi lægri en á launatekjur, þ.e. 10%, í staðinn fyrir meðaltal í launatekjunum sem þá voru 20% þegar maður tekur alla frádrætti frá.

Fyrsta spurningin er sú hvort það séu ekki fjármagnstekjurnar og hvort ekki sé þá ráð að taka aftur upp helmingsskiptin alveg sérstaklega vegna þess að fjármagnstekjur eru í dag flestar neikvæðar, alla vega á almennum innlánsreikningum, og fólk er búið að tapa óhemju í hlutabréfum sem það getur ekki dregið frá kostnað við og kemur ríkinu ekkert við þegar menn tapa.

Síðan er spurningin hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því að við komum aftur með fjáraukalög ef frumvarpið verður samþykkt svona eins og hann leggur til með fyrirvara. Ég flutti frumvarp að fjáraukalögum vegna þess að 50 þúsund kallinn og sitthvað fleira kom inn í kjarasamning sem eykur kostnað ríkisins um 4 milljarða. Hér er aftur verið að auka kostnaðinn og þá er spurningin: Er ekki rétt að koma með ný fjáraukalög eða breytingartillögu við það fjáraukalagafrumvarp sem ég flutti um daginn og herra forseti hefur ekki séð ástæðu til að ræða þó að búið sé að greiða þetta út samkvæmt almannatryggingum og jafnvel má ekki greiða út samkvæmt stjórnarskrá?