139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

almannatryggingar o.fl.

763. mál
[16:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið. Þetta er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á með fjármagnstekjurnar, það er verið að skattleggja þær á neikvæða ávöxtun. Þetta er eitt af því sem menn verða að skoða mjög sérstaklega.

Hv. þingmaður kom líka inn á það sem ég aðeins minntist á í minni ræðu, þ.e. tekjutengingin á greiðslu fyrir að dvelja annaðhvort á hjúkrunarrými eða dvalarheimili. Það er einhver hluti þó að það sé hámarkstala í því en það er eitthvað sem menn verða að ræða að mínu viti því að það gengur í sjálfu sér ekki að sumir greiði upphæð sem er kannski þrisvar sinnum lægri en aðrir greiða, fólk sem hefur sparað eða á einhver réttindi, að það skuli vera að greiða og þessi tekjutenging verða þarna á milli.

Ég benti líka á það í ræðu minni að það kom einmitt í ljós þegar þetta var skoðað, þegar búið var að tengja þessa eignamyndun eða eignir sem fólk á, kannski ekki beint tekjur heldur eignir líka, ef eignastaða fólks er með þeim hætti þá gerir hún það að verkum að þetta um það bil fjórfaldaðist frá því sem gert var ráð fyrir áður en þetta var sett í gang.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður sagði að þessi hópur fólks tapaði að sjálfsögðu miklu á hlutabréfum. Það kom líka í ljós. Ég las fyrir nokkru grein eftir einn af forsvarsmönnum eldri borgara þar sem hann bendir á eins og t.d. með peningamarkaðssjóðina að fólk innan bankanna hafði aðgang að þeim og vissi að þetta fólk átti einhverja peninga, var búið að nurla saman kannski gegnum ævina og átti það inni á bankabók, og þá var gerður út her manna til að hringja í þetta fólk og því talin trú um að þetta væri öruggt. Eflaust gerði það fólk sem hringdi út fyrir hönd bankans það eftir þeirri vitund eða upplýsingum sem það hafði innan úr bönkunum sjálfum en eldri borgarar töpuðu líka mjög miklu þar. Þannig að það er margt sem menn þurfa að ræða og skoða.