139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

atvinnuleysistryggingar og réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

830. mál
[17:08]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru ágætar vangaveltur hjá hv. þingmanni. Ég verð hins vegar að segja að mér finnst hann lita málið mjög skörpum svart/hvítum litum. Ég held að hér sé ekki um að ræða að keyrt sé yfir fólk á grænu ljósi, þ.e. að annaðhvort sé maður atvinnulaus eða glati réttindum sínum, heldur það að brotið hefur verið á fólki, við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd. Þá þarf að taka á því og tryggja að réttindi fólks séu í hávegum höfð. Það er ekki verið að segja að fólk eigi frekar að verða atvinnulaust, heldur er einfaldlega verið að tryggja að menn nýti sér ekki það ástand sem við búum við til að troða á rétti launafólks. Verið er að tryggja að réttur fólks sé í heiðri hafður. Það er ekki um það að ræða að þá verði fyrirtæki ekki starfhæft eða geti ekki haldið áfram o.s.frv. eða að aðrir nýir tekið við rekstrinum heldur þarf einmitt að passa upp á að fólk nýti sér ekki það ástand sem nú ríkir til að skera af þeim áunnu réttindum sem fólk hefur. Það er gríðarlega mikilvægt að allir taki höndum saman um það og ég legg áherslu á að þetta er ekki svo svart/hvítt eins og hv. þingmaður ýjar að.