139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[17:46]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar í örstuttu andsvari að reifa örfá atriði og fá um leið skoðanir okkar ágæta hv. formanns félags- og tryggingamálanefndar á ákveðnum vangaveltum.

Ég tek undir það að nefndin hefur unnið sem einn maður að þessum málaflokki öllum og við fögnum því mikilvæga skrefi sem verið er að stíga í réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Sú réttindagæsla sem var við lýði fyrir tilkomu þess frumvarps sem hér liggur fyrir var ekki einu sinni í skötulíki, hún var nánast engin. Hér erum við því að stíga mjög merkilegt og mikið skref sem ber að fagna. Í fullkomnu samfélagi fyndist manni samt að sérstök réttindagæsla fyrir fatlað fólk ætti ekki að þurfa að vera til.

Mig langar til að ræða um persónulega talsmenn. Ég held að það sé framfaraskref að þeim sé gefinn ákveðinn lagalegur farvegur, þ.e. að hver lögráða einstaklingur fái að velja sér sinn persónulega talsmann ef hann kýs. Mig langar til að velta því upp hvort við erum ekki sammála, ég og hv. þingmaður, um að það séu ávallt hagsmunir og vilji hins fatlaða sem ráða ef upp kemur togstreita. Það getur komið upp togstreita þegar verið er að vinna að málefnum einstaklings með fötlun þar sem fjölskylda og jafnvel starfsmenn eru ekki sammála um hvernig fara eigi með ákveðin mál. Þá skiptir sérstaklega miklu máli með mikið fatlaðan einstakling að við lærum á það hvernig við skiljum skoðun hans og vilja.