139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

728. mál
[17:56]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir góða yfirferð á nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar. Mig langar aðeins að koma inn á nokkra þætti sem hún kom inn á og eru í nefndarálitinu.

Það fyrsta sem ég held að ég megi segja að allir gestir sem við kölluðum til okkar ræddu um var hvar samningur Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra væri vistaður, að það væri í rauninni aðgreining, það væri verið að greina fatlaða frá öðrum, þegar þessi samningur einn mannréttindasamninga væri vistaður annars staðar. Við ræddum talsvert viðhorfið til fatlaðra og málaflokksins í nefndinni og er komið inn á það í þessu langa, mikla og góða nefndaráliti. Við áréttum að það er mikilvægt að vinna í víðtækum viðhorfsbreytingum í málefnum fatlaðs fólks og réttinda þess. Ég held að þetta sé stóra hagsmunamálið í því að okkur langar til að í fullkomnum heimi þurfi ekki að vera sérlög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk og það þurfi ekki að vera til sérlög um fatlaða vegna þess að allir eiga að geta lotið sömu lögum. Við erum öll manneskjur og ættum öll að vera með sömu réttindi. En á meðan við erum að læra að hegða okkur eins og til er ætlast þurfa þessi lög að vera í gildi.

Mig langar líka að koma inn á það sem var rætt í sambandi við sáttmálann. Nefndin taldi ekki samræmanlegt samningnum að fara með réttindagæslu fyrir fatlað fólk sem velferðarmál eða félagslegt málefni. Áréttar nefndin, svo ég grípi niður í nefndarálitið, „þann grundvallarskilning að hér sé um að ræða mannréttindamál en ekki félagslegt málefni eða velferðarmál“. Stóri vandinn okkar liggur hérna. Ég glími við það á hverjum degi í starfi mínu sem kennari að enn eimir eftir af ákveðnu viðhorfi. Það er ekki illa meint, heldur hefur þetta einhvern veginn verið þannig að fatlað fólk var aðgreint í samfélaginu. Við erum að vinna í því, við erum komin með skóla sem fylgir skólastefnunni „skóli án aðgreiningar“. Allir einstaklingar eiga sama rétt og er þetta frumvarp til bóta eins og fram hefur komið. Það er mjög mikilvægt að við opnum á almenna umræðu um fatlað fólk og mér fannst margt sérstaklega áhugavert sem Freyja Haraldsdóttir sagði þegar hún kom fyrir nefndina, m.a. það að hún yrði enn vör við það í stórmörkuðum og búðum þar sem hún kæmi að fólk kippti í börnin sín af því að þau væru að pískra og benda á hana. Henni fannst þetta mjög óþægilegt og vildi að foreldrar útskýrðu málin, hún væri einstaklingur en hún væri svona einstaklingur. Þetta á ekki að vera feimnismál. Við eigum að geta rætt og útskýrt fyrir börnunum okkar og fyrir hvert öðru ef við skiljum ekki að við erum ekki öll eins. Við höfum öll okkar þarfir og eigum öll okkar rétt og það á að koma til móts við hann. Ef við höldum áfram að aðgreina og gera það að feimnismáli að einhver sé fatlaður og einhver þurfi að nota hjólastól eða einhverja aðra þjónustu eða þurfi aðstoðarmann viðhöldum við viðhorfi sem við viljum ekki hafa í samfélaginu.

Þetta er rosalega stórt mál og ég held að það sé varla til sá nemendahópur sem ekki hefur fatlaðan einstakling í sínum röðum, a.m.k. ekki úti á landi. Það eru kannski aðrar aðstæður í Reykjavík. Þetta er rosalega gott og við fáum klára og flotta krakka sem alast upp við það að við erum ekki öll eins, krakka sem alast upp við það að hann Siggi situr alltaf fremst hjá kennaranum vegna þess að hann getur ekki setið annars staðar og hann fær alltaf aðeins öðruvísi verkefni en hinir. Það er bara allt í lagi, það er ekki ósanngjarnt að hann geri minna en hinir. Hann hefur aðrar þarfir en hinir og þetta er lykill að því að breyta viðhorfinu í samfélaginu, að ala upp einstaklinga í skólakerfinu sem vita að við erum ekki öll eins og að við styðjum það sem fullorðið fólk og foreldrar.

Mig langar líka að koma inn á bráðabirgðaákvæðið sem ég tel mjög mikilvægt. Ég var afskaplega ánægð með vinnu hv. formanns og varaformanns sem komu að því að vera í samvinnu og samkomulagi við ráðuneytið um að fá þetta inn af því að umræðan í nefndinni var öll á þann veg að við tókum undir það sem hagsmunaaðilar sögðu um vistunina á samningnum. Við vissum það, eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kom inn á, að við breytum þessu ekki yfir nótt. Þetta tekur tíma og þetta er líka tæknileg útfærsla án þess að ég sé að gera mér það upp að ég hafi mikla faglega þekkingu á málinu. Ég taldi þetta góða leið, og það er góð lausn á þessu máli að við setjum málið í þennan farveg og vinnum að því að þessi samningur verði vistaður á sama stað og aðrir mannréttindasamningar.

Mig langar að koma aðeins inn á í 3. kafla nefndarálitsins. Þar er talað um trúnaðarmenn en ef breytingartillögurnar verða samþykktar munu þeir heita réttindagæslumenn. Mér er tilkynningarskyldan í þeim kafla hugleikin. Við tókum svolítið á því í nefndarálitinu að það ætti ekki að þurfa að hafa mikið fyrir því að tilkynna ef maður telur á einhverjum brotið. Það ætti ekki að vera mikið vandamál, stór og þung skref. Ég hef kynnst því í starfi mínu að ef það er eitthvert flækjustig á því að koma upplýsingum áfram fara þær ekki áfram. Eins og kemur fram í nefndarálitinu þurfa símanúmer trúnaðarmanna sem koma til með að heita réttindagæslumenn að vera á heimasíðu, tölvupóstfang og annað þarf að vera á vefsíðu ráðuneytisins, allt til að auðvelda tilkynninguna vegna þess að maður þarf aldrei að vera beint vitni, maður getur heyrt af eða grunað. Maður ákærir ekki neinn og það verður aldrei gert neitt með þessar upplýsingar nema að sjálfsögðu í samráði við hinn fatlaða einstakling. Það er samt mikilvægt að hafa þetta þarna af því að við eigum öll að láta okkur velferð annarra varða. Það er mikilvægt að kveða sterkt á um það að þegar maður telur á öðrum brotið eigi maður að tilkynna það. Þetta er þessi samfélagslega ábyrgð sem vantar stundum svolítið upp á og við höfum bara gott af því að taka okkur svolítið tak. Ég er mjög ánægð með þetta.

Mig langar líka aðeins að koma inn á stöðugildin. Hv. þingmaður benti í nefndarálitinu á þennan mismun í kostnaðarumsögninni frá fjárlagaskrifstofunni þar sem talað er um 3,5 stöðugildi. Það þarf að sjálfsögðu að ganga þannig frá því að þetta fjármagn verði til staðar, það þarf bara að ganga í það af því að við getum ekki farið að lenda í einhverjum vandræðum og komist að því að ekki eru til peningar til að klára þetta ár sem er tilraunaár. Þetta eru 4,75 stöðugildi. Það var gagnrýnt mjög hart af mörgum, sagt að þetta væri allt of lítið og ekki neitt þrátt fyrir að verið væri að bæta í. Það voru bara 1,5 stöðugildi en nú eru þau orðin 4,75. Það sem vakti athygli mína af því að ég kem ný að þessu var að menn höfðu enga rosalega trú á þessum trúnaðarmönnum sem verða réttindagæslumenn. Ég tók heils hugar undir það að breyta heitinu til þess að auka vonandi trúna og að menn áttuðu sig á því að þeir hefðu víðara starfssvið. Ég tek líka undir það, þó með þeim formerkjum að allt kostar þetta peninga og þá þarf að gera ráð fyrir auknu fjármagni. Talan sem mjög oft var nefnd var 7 stöðugildi, að það þyrfti til að uppfylla kröfurnar, en ég tel að sú lausn sem náðist með 4,75 stöðugildum í eitt ár sem verður svo metið sé góð. Ég vona og treysti því að velferðarráðuneytið meti stöðuna að þessum tíma liðnum og bæti þá í ef þörf reynist og að sjálfsögðu með því fororði að það rúmist innan ramma fjárlaga.

Ég ætla að víkja aðeins að persónulegum talsmönnum. Það mál var mikið rætt í nefndinni og einu sinni eða tvisvar kom talsvert hörð gagnrýni á persónulegu talsmennina og hvernig þetta væri sett fram, en það voru líka þónokkuð margir sem fögnuðu þessu og töldu þetta framfaraskref. Það sem sat svolítið í mér var að við erum með Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum og að til þess var ekki leitað þegar verið var að skrifa þetta lagafrumvarp. Ég var svolítið hissa vegna þess að það þarf talsvert mikla sérþekkingu á þessu máli. Til dæmis er mikið vitnað til 12. gr. samningsins um málefni fatlaðra og það eru bara örfáir einstaklingar í heiminum sem hafa sérhæft sig í þeirri grein, svo flókin er hún. Við búum svo vel að við Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum starfar einstaklingur sem hefur haldgóða þekkingu á þessari grein og hefði verið mjög gott ef hún hefði komið að, a.m.k. að hluta, þótt ég sé mjög ánægð með það hversu góðan og mikinn tíma nefndin gaf sér í að vinna þetta frumvarp. Við getum státað af því að við gerðum breytingartillögur við hverja einustu grein í frumvarpinu. Það er ekki víst að við hefðum þurft að gera allar þessar breytingar ef leitað hefði verið til fræðasamfélagsins áður en lagt var af stað. Það er gott að hafa það í huga af því að við höfum glímt við það í þinginu undanfarna daga og held ég að enginn sem horfir á fréttir hafi farið varhluta af því að við höfum hrópað hér að lagafrumvörp séu vanbúin, illa unnin og komi ekki tæk inn til þingsins. Þetta frumvarp var það alls ekki en það hefði getað orðið talsvert betra ef leitað hefði verið til fræðasamfélagsins. Nefndin tók sig þó til og leitaði umsagna hjá mjög mörgum aðilum og ég verð að hrósa því af því að ég stóð hér í þessum ræðustól og kvartaði og kveinaði yfir frumvarpi um Stjórnarráðið, yfir skorti á samráði og að það væri ekkert að frétta í því nema fögur orð. Ég verð að hrósa þessu ferli og mér þótti mjög lærdómsríkt, árangursríkt og einkar skemmtilegt að sitja í hv. félags- og tryggingamálanefnd og kynnast þeim vinnubrögðum sem eru viðhöfð þar, og sérstaklega í þessu máli. Þar voru allar skoðanir jafnréttháar, þar var tekið tillit til sjónarmiða og hlustað á þau. Það var kallað á gesti aftur ef okkur þótti vanta svör og ég hrósa þessum vinnubrögðum. Þau eru til eftirbreytni og auka virðingu þingsins og ég hrósa því af því að ég tel að maður eigi bæði að lofa og lasta. Það er tekið mark á manni þegar maður lastar ef maður lofar stundum líka.

Mig langar að enda mál mitt með því að grípa niður í nefndarálitið, mjög viðeigandi lokaorð, með leyfi forseta:

„Með þessu frumvarpi er stigið mikilvægt skref í réttindagæslu fyrir fatlað fólk þó ekki sé ráðið fram úr öllum ágöllum þessa mikilvæga réttindamáls. Nefndin hefur því lagt sig fram um að betrumbæta og skýra tiltekna þætti frumvarpsins og koma öðrum og stærri málefnum í ákveðið úrlausnarferli til lengri tíma.“