139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[18:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það gætir mikillar bjartsýni í íslenskri ferðaþjónustu og það er í sjálfu sér ekki að undra miðað við þann ágæta og góða vöxt sem verið hefur í greininni á undanförnum árum, sérstaklega síðustu ár. Þessi vöxtur hefur leitt það af sér að ferðaþjónustan er án nokkurs vafa ein af okkar undirstöðuatvinnugreinum og mjög mikilvægur þáttur í atvinnulífi okkar.

Af því tilefni höfum við sett okkur háleit markmið um stefnumið ferðaþjónustu til næstu ára; 500 þúsund ferðamenn til landsins á síðasta ári. Sá múr var rofinn og í ár er þess vænst að fjöldi ferðamanna til landsins geti orðið um 600 þús. og jafnvel farið yfir eina milljón ferðamanna innan ekki svo langs tíma.

Ég vil nota þetta tækifæri, virðulegi forseti, um leið og ég gleðst yfir þessari þróun, og minna á mál sem verið hefur mér hjartfólgið í gegnum árin og það eru hvalveiðar. Þá vil ég nefna það mikla ofmat á áhrifum þeirra sem fram komu alveg sérstaklega hjá ferðaþjónustunni og ákveðnum aðilum innan ferðaþjónustunnar, en eins og flesta rekur minni til var það helst ferðaþjónustan og ákveðinn geiri innan hennar sem börðust hvað lengst og mest gegn því að Íslendingar hæfu aftur hvalveiðar. Nú hefur baráttan breyst hjá þeim samtökum sem lögðu þeim mestan stuðning, hjá friðunarsamtökum út um allan heim. Þau voru með opinn fund á sjómannadaginn eða í tengslum við hann þar sem þau boðuðu í raun nýjan boðskap. Nú er það ekki lengur ógnin að ferðamenn kjósi ekki að koma til Íslands vegna hvalveiða og allar þær tröllasögur sem sagðar voru af því að hér mundi allt fara fjandans til ef við hæfum veiðar aftur og ferðamenn mundu hætta að koma. Nú á baráttan að snúast um að fá ferðamenn til að hætta að borða hvalkjöt á Íslandi en eins og menn vita sem fylgjast með er það einn af vinsælli réttum á veitingastöðum út um allt land og erlendir ferðamenn sækjast alveg sérstaklega eftir því að borða hvalaafurðir.

Ég held að það sé ágætisáminning um fyrir hvað íslensk ferðaþjónusta á að standa. Hún á auðvitað að standa fyrir náttúru og menningu landsins. Við megum aldrei gleyma rótum okkar og af hverju við erum sprottin og það er í raun það sem er eftirsóknarverðast fyrir þá erlendu ferðamenn sem sækja landið heim. Þannig hefur það sýnt sig að hvalaskoðun er vaxtarbroddur í íslenskri ferðaþjónustu, hún hefur vaxið mikið á undanförnum árum og getur gengið mjög vel samhliða hvalveiðum. Reyndar gætu hvalveiðar líka verið áhugaverðar fyrir ferðamenn.

Það er mikilvægt að við stöndum vel að eflingu þessarar atvinnugreinar í framtíðinni, eflum enn áhrif íslenskrar ferðaþjónustu á íslenskt efnahagslíf. Tækifærin eru til staðar og fjárfestingin líka. Við höfum séð að fjölbreytni og bjartsýni hafa aukist mikið í greininni. Ferðamönnum standa nú til boða miklu fjölbreyttari afþreyingarmöguleikar en áður þegar þeir koma til landsins. Þeir geta farið á miklu fleiri svæði en nokkru sinni áður og við eigum að auka það framboð gagnvart ferðamannaflóru okkar.

Eitt af því sem mikilvægt er í þeim efnum er uppbygging fleiri ferðamannastaða og til þess hefur verið settur í gang ákveðinn framkvæmdasjóður sem er hugsaður fyrst og fremst til að efla aðgengi að ferðamannastöðum sem ekki eru eins mikið sóttir í dag, ekki síst til að tryggja og auka öryggi og bæta aðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum, en það hefur verið eitt af vandamálum okkar hvað margir ferðamannastaðir eru vanbúnir til að taka á móti þeim vaxandi fjölda sem þangað kemur. Við verðum að setja okkur mikilvæg markmið í þessum efnum. Við verðum að tryggja öryggi ferðamanna eins vel og við getum, auka fjölbreytnina gagnvart þeim stöðum sem þeir geta heimsótt og hafa þar mannsæmandi aðstöðu til að geta tekið á móti þeim.

Bættar samgöngur eru eitt af grundvallaratriðunum sem þarf að horfa til þegar við ætlum að efla ferðaþjónustu um landið. Það felst í vegagerð og við verðum að miða við þau svæði sem ferðamenn sækja þegar við forgangsröðum því fjármagni sem við setjum í vegagerð. Það eru ákveðin landsvæði sem þarf að horfa til alveg sérstaklega í þeim efnum og ákveðnir ferðamannastaðir sem nauðsynlegt er að bæta aðgengi að.

Flugvöllurinn í Reykjavík er líka mjög mikilvægur þáttur í þessu og um staðsetningu hans hafa verið skiptar skoðanir. Ég hef lagt á það áherslu og er þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt, ekki síst fyrir ferðaþjónustuna eins og í raun í öllu tilliti, að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu ásamt nokkrum þingmönnum til að leggja áherslu á það mál. Ég held að það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld beiti sér gagnvart Reykjavíkurborg í samningum um framtíðarstaðsetningu vallarins í Vatnsmýrinni. Það er ekki hægt, hvorki fyrir allan þann fjölda Íslendinga sem notar völlinn til að komast til Reykjavíkur og frá Reykjavík, þá á ég við landsbyggðarfólk en ekki síður höfuðborgarbúa sem nota þá þjónustu, að búa við þessa óvissu og allra síst fyrir ferðaþjónustuna til lengri tíma. Eins er nauðsynlegt fyrir þá sem stunda starfsemi sína á þeim fjölmenna vinnustað sem Reykjavíkurflugvöllur er, að geta bætt aðstöðu sína og veitt betri þjónustu. Ég tel það vera eitt af þeim brýnustu málum sem þarf að líta til þegar við horfum til uppbyggingar og eflingar ferðaþjónustu, að innanlandsflugið verði tryggt til og frá Reykjavík með framtíðarstaðsetningu flugvallarins á þessu svæði.

Í umræðu okkar um þessa ferðamálaáætlun til ársins 2020, sem ég vil segja að hafi verið nokkuð vel unnin — hún var vel fram sett af hálfu embættismanna ráðuneytisins, hún var stutt og skýr og með hnitmiðuð markmið en það voru atriði sem þurfti að skoða betur, eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Kristján L. Möller, fór yfir áðan. Eitt af því voru öryggismál ferðamanna. Við höfum upplifað á undanförnum árum mikil átök í náttúru okkar. Það er nokkuð sem við höfum vanist í gegnum aldirnar og munum þurfa að búa við í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt að við tökum tillit til þess þegar við horfum til íslenskrar ferðaþjónustu og öryggismála þeirra ferðamanna sem koma til landsins. Eldgosin í fyrra og á þessu ári eru mjög skýr dæmi um þetta en það eru líka aðrir hlutir sem þarf að horfa alveg sérstaklega til.

Með þeirri auknu fjölbreytni sem stendur ferðamönnum til boða hafa aukist mjög mikið svokallaðar hálendisferðir, þ.e. ferðamenn fara í skipulegar ferðir um jökla en líka mikið á eigin vegum um þekktari hálendisvegi. Ég hef stundum rifjað það upp í þessu sambandi, eftir að hafa starfað áratugum saman í björgunarsveitum landsins, að á árum, þegar líða fór að sumri, sögðu menn: Jæja, við sjáumst aftur í haust. Það var hægt að ganga út frá því að það yrði að mestu leyti sumarfrí hjá björgunarsveitunum yfir sumarið, það voru örfá útköll. En það hefur breyst mjög mikið og sumartíminn er núna einn mesti annatíminn hjá björgunarsveitum okkar bæði til lands og sjávar. Það fylgir ekki síst aukinni ferðamennsku hér og vandræðum erlendra ferðamanna á hálendi landsins. Af því tilefni settu björgunarsveitirnar á svokallaða hálendisvakt fyrir örfáum árum, þær vildu gera tilraun með að hafa björgunarsveitir á fastri vakt yfir háannatímann, yfir sumarið, og það kom í ljós að mikil þörf var fyrir þá vakt. Í hana hefur nú verið bætt svo um munar þannig að nú hafa um fimm björgunarsveitarhópar fasta staðsetningu á hálendinu yfir hásumartímann — ætli það séu ekki einar sjö vikur. Sú vinna er öll í sjálfboðavinnu, skipulögð af björgunarsamtökunum. Við stöndum auðvitað í þakkarskuld við þetta fólk fyrir það mikilvæga starf og fyrir að auka öryggi ferðamanna okkar með þessum hætti.

Samtökin hafa líka ýtt af stað og átt frumkvæði að því að setja á laggirnar svokallað safetravel- verkefni sem unnið er í samráði við ferðaþjónustuaðila og ferðamálayfirvöld. Það er mjög mikilvægt að yfirvöld sem hafa umsjón með því horfi sérstaklega til þessa mikilvæga starfs og leggi því allan þann stuðning sem þau geta.

Upplýsingamál eru stór þáttur í því að auka öryggi ferðamanna og til þeirra þarf að horfa alveg sérstaklega. Það er mjög einfalt í sjálfu sér fyrir okkur að ná utan um og ná til þess fjölda sem hingað kemur. Við erum eyland þar sem innkomustaðir ferðamanna eru tiltölulega fáir og við eigum að geta miðlað upplýsingum með auðveldum hætti til að tryggja þann þátt ferðaþjónustunnar.

Tækifærin liggja alveg örugglega í aukinni fjölbreytni, að auka enn frekar fjölbreytni í ferðaþjónustu okkar sem hefur vaxið mjög á undanförnum árum. Við höfum nú tekið í notkun Hörpu, mikla ráðstefnuhöll sem gerir okkur kleift að bjóða upp á enn betri aðstæður til að halda alþjóðlegar ráðstefnur. Við hljótum að horfa mjög til þess í framtíðinni að geta lengt ferðamannatímann og fengið að halda stærri og fjölmennari ráðstefnur en við höfum áður ráðið við með þessa góðu aðstöðu í höndunum, ekki síst yfir vetrartímann þegar eftirspurnin er minni og nýting á allri fjárfestingu, gistirými og öðru, er minni. Vetrarferðamennska er það sem við þurfum að horfa til í framtíðinni. Við þurfum að horfa til þess að lengja ferðamannatímabilið. Það hefur verið akkillesarhæll íslenskrar ferðaþjónustu hversu stutt tímabilið er og öll sú fjárfesting sem lagt er í til að geta tekið á móti þessum mikla fjölda ferðamanna hefur verið vannýtt svo mánuðum skiptir yfir vetrartímann. Við verðum að horfa alveg sérstaklega til landsbyggðarinnar í þessum efnum en við þekkjum öll dæmi þess hversu erfitt ferðaþjónustan á uppdráttar í landsbyggðinni á þessum stutta tíma yfir sumarmánuðina. Það verður að horfa alveg sérstaklega til þess í átaki okkar að leggja áherslu á vetrarferðir víða um landið þar sem við getum þá stutt við bakið á hinni vaxandi og mikilvægu atvinnugrein á landsbyggðinni.

Það er engin spurning í mínum huga að með þeirri miklu tæknibreytingu og tækniþróun sem orðið hefur í grundvallargreinum okkar eins og sjávarútvegi og landbúnaði hefur landsbyggðin liðið fyrir að það þarf nú færri hendur til að vinna verkin og stjórnvöld hafa í gegnum árin brugðist í því að auka fjölbreytni í atvinnusköpun á landsbyggðinni og vinna gegn fólksflótta þaðan, sem við viljum ekki sjá. Við viljum sjá öfluga byggð um allt land. Aukin nýting fjárfestinganna er að því leyti grundvallaratriði.

Ferðamálaáætlunin er einföld og skýr. Markmiðin eru háleit og sett fram með skýrum hætti. Það er vilji til þess hjá stjórnvöldum, maður finnur það, að standa þétt við bakið á ferðaþjónustuaðilum, efla markaðsstarf sem er grunnurinn að því sem við erum að leggja út í, og eins með því að setja aukið fjármagn í það að gera fleiri ferðamannastaði aðgengilegri og auka öryggi ferðamanna. Ef við fylgjum þeirri áætlun hef ég ekkert annað en bjarta von um að við munum sjá ferðamannastraum aukast og að við náum þeim árangri sem stefnt er að; að lengja ferðamannatímabilið þannig að þessi grein eigi sér enn lífvænlegri framtíð en verið hefur fram að þessu.