139. löggjafarþing — 142. fundur,  6. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[19:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni ágæta ræðu og yfirferð yfir málið. Ég er sammála honum í mörgum atriðum, að þetta sé mjög brýnt. En mig langar til að spyrja hv. þingmann hvaða mál hann sæi fyrir sér að gætu fallið undir þetta. Nú er búið að víkka þetta út, þetta nær ekki bara til mála sem tengjast meðferð opinbers valds heldur er þetta orðið almennt, þ.e. að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varðar og þar undir fellur náttúrlega fjöldinn allur af málum. Hér var nefnd rannsókn á sparisjóðunum. Vil ég þá geta þess að nauðsynlegt er að fara dálítið langt aftur í tímann til að fá góða mynd af því máli, eða allt aftur til 1990. Síðan er spurningin um rannsókn á lífeyrissjóðunum, sem þeir eru reyndar búnir að setja í gang, rannsókn sem er kostuð af þeim sjálfum, en það er dálítið ótrúverðugt. Það er trúverðugar ef óháður aðili kæmi að því. Eins er það með hluti sem mikið hefur verið kvartað undan, þ.e. rangri ráðgjöf bankanna varðandi kaup á hlutabréfum eða að leggja peninga í sjóði. Og svo er spurningin um rannsókn á raðeignarhaldi og lánveitingum og öðru slíku þar sem peningar fóru í hring, sem mér finnst vera mjög áberandi núna í fréttum, gífurlegar upphæðir, enda kannski auðvelt þegar peningarnir fara hring eftir hring að hægt sé að hafa þá í ansi háum tölum.

Það er ekki svo að ég vilji fara að rannsaka og leggjast í rannsóknir endalaust þannig að þjóðin stöðvist við það. Við þurfum náttúrlega að hugsa til framtíðar en einhvern veginn þurfum við að læra af fortíðinni og þá er kannski nauðsynlegt að fara í eina og eina rannsókn, þó að það verði ekki aðalverkefni þjóðarinnar til framtíðar að rannsaka fortíðina.