139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til hv. 2. þm. Suðurk., Bjarna Benediktssonar, um Ísland og Evrópumálin. Ein mesta breyting sem orðið hefur á stjórnskipun Íslands átti sér stað með gildistöku samninganna um Evrópska efnahagssvæðið og Schengen. Með samningunum tóku Íslendingar á sig þær kvaðir að yfirtaka stóran hluta löggjafar Evrópusambandsins án þess að geta haft áhrif á hana nema að mjög svo takmörkuðu leyti, og það nær eingöngu hvað varðar innleiðingu löggjafar.

Spurt er: Hversu lengi ætlar Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi, og leiðtogi hans að sætta sig við að Alþingi Íslendinga, ríkisstjórn Íslands og flokkurinn sjálfur hafi nær enga möguleika á að hafa áhrif á þá löggjöf sem landsmenn eru skikkaðir til að fara eftir vegna aðildar að EES og Schengen?

Samningurinn við Evrópska efnahagssvæðið hefur vissulega orðið okkur Íslendingum að mörgu leyti til góðs. Hann er hins vegar engan veginn ásættanlegur fyrir þjóð sem vill telja sig sjálfstæða og fullvalda. Samningurinn er einn ólýðræðislegasti alþjóðasamningur sem nokkurn tíma hefur verið gerður af sjálfstæðri þjóð, ef ekki sá ólýðræðislegasti. Allar aðrar EFTA-þjóðir litu á hann sem skammtímasamning. Þessi skammtímasamningur hefur hins vegar breyst í langtímasamning fyrir okkur Íslendinga.

Ef löggjöf Evrópusambandsins er svo góð að við þurfum ekki að hafa áhrif á hana hlýtur að vera enn betra fyrir okkur að vera innan sambandsins þar sem við getum meðal annars haft frumkvæði að lögum og gert Ísland að stórveldi þegar kemur að sjávarútvegsmálum innan sambandsins.

Sjálfstæðisflokkurinn var eitt sinn mikilvægasti hlekkurinn í tengingu landsins við vestræna samvinnu. Í dag fer vestræn samvinna Evrópuþjóða fram (Forseti hringir.) á vettvangi Evrópusambandsins. Hvað gerðist? Hvað er að óttast? Við hvað er Sjálfstæðisflokkurinn svona hræddur?