139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fékk í hendurnar í gær svar frá velferðarráðherra við fyrirspurn minni um Íbúðalánasjóð og sérfræðiaðstoð. Það tók rúmlega níu mánuði að fá það svar, en hæstv. ráðherra hefur til þess tíu daga. Það komu að vísu svör sem voru út í hött og ég þurfti að fá lögfræðiálit til að fá loksins svarið. Það er að vísu ekki fullnægjandi og ég mun fylgja því nánar eftir, þ.e. spyrjast frekar fyrir um þessa hluti og fylgjast grannt með svörunum. Það er mjög athyglisvert sem þar kemur fram og ég mun fylgjast grannt með því hvaða fjölmiðlar sjá sér hag í því að upplýsa hvað þar stendur. Það verður frétt í sjálfu sér líka.

Virðulegi forseti. Út af Evrópumálunum hvet ég hv. þm. Baldur Þórhallsson, sem þekkir þessi mál vel, til að upplýsa almenning og þá sem hann á að upplýsa alla jafna um hvað er hér á ferðinni. Þegar hv. þingmaður heldur því fram að við getum orðið stórveldi í sjávarútvegsmálum, af hverju segir hv. þingmaður ekki frá því að við flytjum sjávarútvegsmálin yfir til Brussel? Hv. þingmaður veit það.

Breskur þingmaður sem ég hitti einu sinni sagði: Vandi minn núna — af því að hann var í sjávarútvegskjördæmi — er að þegar ég er spurður út í sjávarútvegsmál verð ég að segja: Þið verðið að tala við Evrópuþingmanninn. Það er nú allt stórveldið. Menn geta haldið því fram að einhverjar reglur við að ganga inn í Evrópusambandið henti okkur ágætlega núna, en það eru samt reglur þess. Ef einhver er svo bjartsýnn að telja að Íslendingar muni stýra Evrópusambandinu ef þeir ganga þar inn er það eitt almesta ESB-trúboð sem um getur og er nú af nógu að taka eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns. (Gripið fram í.)

Ég held, virðulegi forseti, að hv. þingmaður ætti að snúa sér að sinni eigin ríkisstjórn og hvetja hæstv. ráðherra til að beita þeim öflum sem við höfum, alveg eins og Noregur gerði, (Forseti hringir.) til að hafa áhrif á stórhættulega lagasetningu Evrópusambandsins eins og um innstæðutryggingarnar. Og ég hvet hv. þingmann, af því að hann þekkir þessi mál vel, til að sýna þeim hvernig Noregur hagar sínum málum. (Forseti hringir.) Ef við mundum gera það með sama hætti væri margt betra.