139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Evrópumálefni -- vinnubrögð í nefndum -- svar við fyrirspurn o.fl.

[11:05]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur kærlega fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga og brýna verkefni. Ég vil byrja á að taka fram að það er auðvitað forgangsverkefni Landgræðslunnar, umhverfisráðuneytisins og stjórnvalda að hefta og græða upp öskuna frá gosstöðvunum í Vatnajökli. Landgræðslan hefur lagt fram áætlun um uppgræðslu á öllu þessu svæði. Mér er ekki kunnugt um hversu háar fjárhæðir þar er um að tefla en sú áætlun er til skoðunar í ráðuneytinu og verður lögð fyrir ríkisstjórn á allra næstu dögum.

Ég vil rifja upp að áætlun Landgræðslunnar sem sneri að uppgræðslu eftir Eyjafjallajökulsgosið hljóðaði upp á um 100 millj. kr. Gríðarlega mikil og góð reynsla fékkst í því verkefni í fyrra en það er rétt sem hv. þingmaður nefndi, það þarf að halda áfram á því svæði líka. Þetta verkefni núna fyrir austan er hins vegar ólíkt því sem var á söndunum fyrir sunnan og í kringum Eyjafjallajökul, þar voru árfarvegirnir vandamálið, kakkstíflaðir af mikilli ösku. Fyrir austan er núna öskulagið hins vegar margfalt þykkara og hættan á foki þess vegna öll önnur.

Ég á von á því að ekki standi á stuðningi stjórnvalda eða ráðuneytisins við fólk fyrir austan með að fylgja þeirri áætlun sem Landgræðslan er nú að kynna. Ég er alveg sannfærð um að þingmenn taka allir undir að þetta er mikið forgangsverkefni.