139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

vinna við frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur nú setið á fundum í um það bil tíu tíma og síðasta fundinum í gærkvöldi lauk í raun og veru þegar nýr dagur hafði heilsað. Fram undan eru mikil fundahöld en það sem liggur þó fyrir nú þegar er að þetta frumvarp er í algjörum tætlum. Ekki einum einasta manni sem komið hefur fyrir nefndina líst á gripinn. Athugasemdir hafa borist við meginstefnumótun frumvarpsins, veigamiklar athugasemdir við útfærslurnar. Það eru athugasemdir við hvert einasta atriði í hverri einustu grein frumvarpsins. Það hefur komið fram að einskis samráðs var leitað við undirbúning þessa máls. Þetta er fáheyrt.

Það hafa verið færð rök fyrir því að frumvarpið stangist á við stjórnarskrána og það hafa verið færð rök fyrir því að það muni stuðla að lækkun gengisins. Samt sem áður virðist eiga að halda þessari vitleysu áfram, jafnframt því sem ég heyri einstaka stjórnarliða koma hér upp og tala um að nú þurfi að fara að bæta vinnubrögðin á Alþingi. (Forseti hringir.) Þetta er forstokkun. Þetta er hræsni og þetta er hneyksli.