139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

vinna við frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá öllum af augljósri ástæðu. Það er hægt að taka svo mörg dæmi þess að öll umræðan um að menn vilji vanda þingstörfin er farin að hljóma eins og öfugmæli. Eftir að þessi hæstv. ríkisstjórn tók við hefur þetta aldrei verið jafnslæmt. Ef einhver er búinn að vera hér svo lengi að hann muni eitthvað annað — það er að vísu hvorugur sá hv. þingmaður — jú, þarna er einn hv. þingmaður sem kannski man það langt aftur að hann geti upplýst okkur um það hvenær vinnubrögðin voru síðast eins og þau eru núna. Í fullri alvöru eru menn að tala um að klára á nokkrum dögum mál í (Gripið fram í.) bullandi ágreiningi. Hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson langar til að koma hér upp og ég hvet hann til að láta verða af því. (Forseti hringir.) Við skulum bara hætta að tala um að við viljum vanda þingstörfin ef menn ætla að halda svona áfram.

(Forseti (ÁRJ): Þessi gagnrýni hefur komist til skila til forseta.)