139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

vinna við frumvarp um stjórn fiskveiða.

[11:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ef það er ætlun meiri hluta þingsins að keyra þetta mál hér í gegn með þeim vinnubrögðum sem hafa verið boðuð er það lágmarkskrafa okkar í sjávarútvegsnefnd að fá vinnufrið. Til þess þarf þá að fresta þingfundum. Það er lágmarkskrafa að við fáum tíma til að vinna þetta mál, fáum að fá til okkar gesti til að fjalla um þetta mál og leyfa þeim að gera grein fyrir þeim alvarlegu athugasemdum sem allir umsagnaraðilar hafa gert, bæði um málatilbúning og efnisatriði málsins.

Það er hægt að bjóða okkur þingmönnum upp á ýmislegt þegar kemur að vinnutíma og ég kveinka mér ekki undan því þó að auðvitað sé full ástæða til að gera við það alvarlegar athugasemdir, en við getum ekki boðið gestum okkar og umsagnaraðilum upp á það að hitta okkur hér seint á kvöldin og fram á nætur eins og raunin varð í gærkvöldi. Það eru ekki boðleg vinnubrögð af hálfu þingsins að bjóða (Forseti hringir.) umsagnaraðilum upp á slíkt fyrir utan þann skamma tíma sem þeir hafa til undirbúnings á þessum fundum. Þessu verður að breyta, virðulegi forseti, og ég hvet (Forseti hringir.) forseta til að beita sér fyrir því að nefndin fái þá vinnufrið til að hlusta á alla þá fjölmörgu aðila sem þurfa að koma að þessu máli.

(Forseti (ÁRJ): Forseti gerir nú fimm mínútna hlé á þessum fundi og boðar þingflokksformenn til fundar við sig í forsetaskrifstofu.)