139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Landsbókasafn -- Háskólabókasafn.

760. mál
[11:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það var töluverð sátt um þetta mál í menntamálanefnd, þar sem við erum hérna með heildarlöggjöf fyrir Landsbókasafn – Háskólabókasafn. Það borgar sig hins vegar að hlusta á þær ábendingar sem við fáum úr samfélaginu og eftir að málið var afgreitt út úr nefnd kom ábending um stjórnarfyrirkomulag Landsbókasafns sem ég tel ástæðu til að skoða betur og vil óska eftir því að málið fari aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. Það tengist því hvers konar stjórnun við viljum hafa á opinberum stofnunum. Það voru ýmsar ábendingar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um samskipti stjórna og forstöðumanna, þá sérstaklega á fjármálamarkaðnum. Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum hvort það eigi að vera stjórn á milli ráðherra og forstöðumanns eða hvernig við getum í auknum mæli tryggt atvinnulýðræði (Forseti hringir.) innan opinberra stofnana og skoðað þá sérstaklega tillögur sem meðal annars hæstv. forsætisráðherra lagði hér fram fyrir nokkrum árum.