139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

ferðamálaáætlun 2011--2020.

467. mál
[11:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um ferðamálaáætlun fyrir árin 2011–2020 og nokkrar breytingartillögur sem iðnaðarnefnd hefur gert við hana. Ég vil sérstaklega geta um tvær, annars vegar þá sem snýr að öryggi ferðamanna, að gefnu tilefni auðvitað út af tveimur síðustu eldgosum. Hér er gerð tillaga um að það skuli vinna viðbragðsáætlun vegna náttúruhamfara, þar með talið með öruggum samgöngum og getið um það að ef flug teppist til og frá Íslandi um langan tíma sé vert að huga til dæmis að auknum ferjusiglingum til og frá landinu. Það var byrjað að vinna það á síðasta ári vegna Eyjafjallagossins og rétt að ítreka að það þarf að gera. Jafnframt er kveðið á um samgöngur sem var ekki gert í áætluninni og sett inn sérstök grein um að samgöngur séu mikilvægasta forsenda allrar ferðaþjónustu á Íslandi.

Virðulegi forseti. Þetta eru veigamestu breytingarnar sem við gerum á þeirri annars góðu ferðamálaáætlun sem hér liggur fyrir.