139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[12:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka allsherjarnefnd kærlega fyrir þá miklu vinnu sem fór fram milli 2. og 3. umr. og þær breytingartillögur sem verið er að leggja fram hér. Margar af þeim tillögum voru athugasemdir sem m.a. ég kom á framfæri við nefndina ásamt öðrum fulltrúum sem hafa starfað í nefndum og unnið að rannsókn mála eða í rannsóknarnefndum.

Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli mína í þeim breytingartillögum sem hér koma fram er ákvæðið um vernd uppljóstrara. Þegar ég segi að það veki athygli mína þá tel ég að þetta ákvæði geti orðið mjög gagnlegt. Þetta er ákveðin nýbreytni í íslensku lagaumhverfi og verið er að víkja frá ákvæðum réttarfarslaga um að það eigi að sækja menn til saka fyrir brot. Það sem ég hefði áhuga á að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson um er hvort allsherjarnefnd hafi skoðað að setja almenna löggjöf um vernd uppljóstrara í samræmi við t.d. hina svokölluðu „whistleblower“-löggjöf í Bandaríkjunum, þannig að hægt væri að nota þetta en hérna er þetta afmarkað með því að upplýsingar eða gögn sem tengjast refsiverðu broti þurfi að vera í opinberri stjórnsýslu eða broti á opinberum starfsskyldum. Í okkar litla samfélagi getur oft verið mjög erfitt og jafnvel kostað menn lífsviðurværið að koma fram með viðkvæmar upplýsingar sem varða brot á lögum. Þess vegna hefði ég mikinn áhuga á að heyra frá þingmanninum bæði um þá hugsun sem kemur fram hjá nefndinni með því að leggja til þetta ákvæði og líka hvort rætt hafi verið að setja almenna löggjöf um vernd uppljóstrara.