139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[12:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur. Það er alveg rétt sem hún kom inn á í upphafi máls síns að athugasemdir sem hún kom fram með við 2. umr. málsins urðu ásamt öðru tilefni til þess að nefndin tók málið til gagngerrar endurskoðunar milli 2. og 3. umr. Ég játa það alveg að sem almennur nefndarmaður í allsherjarnefnd tók ég eftir ræðu hv. þingmanns og taldi ástæðu til að skoða ákveðna þætti sem hún vék að í máli sínu. Síðan kom í ljós að í mörgum tilvikum var fullt tilefni til að taka tillit til þeirra athugasemda sem hún hafði komið á framfæri. Að sama skapi komu fram athugasemdir frá mönnum utan þings sem reynslu hafa af rannsóknarstörfum af þessu tagi sem nefndinni þótti líka ástæða til að leggja töluverða vinnu í að skoða. Niðurstaðan úr þeirri vinnu liggur frammi í þeim breytingartillögum sem hér hafa komið fram.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að ákvæðið um hina svokölluðu uppljóstrara er auðvitað óvenjulegt. Það á sér fyrirmyndir í löggjöfinni um rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins og að ég hygg líka í löggjöf um embætti sérstaks saksóknara. Ég þori ekki að segja til um hvort mikið hafi reynt á það í framkvæmd en alla vega var talið rétt í þeim tilvikum að setja slíkt inn í löggjöfina. Við ákváðum í allsherjarnefnd að fara sömu leið núna í ljósi þess að í mörgum tilvikum getur verið erfitt, jafnvel ógerlegt að afla upplýsinga um þau atriði sem máli skipta nema með einhverjum slíkum hætti. En varðandi almenna löggjöf eða almenn ákvæði um uppljóstraravernd hefur slíkt ekki verið tekið til sérstakrar umræðu í nefndinni þannig að það liggi fyrir.