139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[12:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það komi til álita að setja almenn ákvæði af þessu tagi. Ég held að í mjög mörgum tilvikum geti sú staða verið uppi að brot verði ekki að fullu upplýst nema til komi upplýsingar frá einhverjum sem við getum kallað uppljóstrara. Og það er alveg rétt að jafnvel þó að uppljóstrarinn hafi framið eitthvert brot sem telja má miklu vægara eða minna en sá sem rannsóknin hverju sinni beinist aðallega að getur óttinn við að fá á sig málssókn orðið til þess að menn gefi ekki þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru.

Ég segi því við hv. þingmann: Já, ég tel að þetta komi vel til greina. Þarna er um að ræða viðkvæmt svið að því leyti að löggjöfin og réttarfarið gerir almennt ráð fyrir því að ef menn hafa framið refsivert brot skuli þeir sæta ákæru og eftir atvikum refsingum eða viðurlögum. Þarna er því um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu. En eins og hv. þingmaður kom inn á er auðvitað gert ráð fyrir að þarna fari fram ákveðið mat á brotinu, hvort brot uppljóstrarans sé ekki örugglega mun vægara en það brot sem aðallega er verið að rannsaka og hins vegar hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að þær hafi úrslitaþýðingu við uppljóstrun og rannsókn málsins. Það skiptir líka máli vegna þess að það verður að vera eitthvað sem máli skiptir þannig að menn geti ekki notað þessa heimild til að koma sjálfum sér undan refsingu með því að benda á einhverja aðra. Þetta þarf að vera eitthvað sem raunverulega skiptir máli til þess að leiða okkur til réttrar niðurstöðu í hverju máli. (Forseti hringir.) Um þetta vil ég almennt segja: Já, ég tel að það eigi að skoða (Forseti hringir.) slíka almenna heimild og ég tel rétt að það (Forseti hringir.) verði gert en legg áherslu á að það verði að vanda það verk.