139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[14:06]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við erum í 3. umr. um frumvarp til laga um rannsóknarnefndir. Ég hef haft töluverðan áhuga á þessu frumvarpi og gerði bæði við 1. og 2. umr. umtalsverðar athugasemdir við frumvarpið, sérstaklega hvað varðar þær áhyggjur sem ég hafði af því að rannsóknarnefndirnar sem við mundum skipa hefðu ekki nægilegar valdheimildir til að kalla eftir nauðsynlegum upplýsingum til að Alþingi gæti sinnt eftirlitshlutverki sínu, og ekki bara eftirlitshlutverkinu heldur því sem ég tel mikilvægt að horfa til þegar við setjum á stofn rannsóknarnefndir, að við getum lært af þeim upplýsingum sem koma fram í vinnu þessara nefnda þannig að þegar við fáum niðurstöðurnar séu þær þess háttar að við getum horft fram á við, lagfært þá löggjöf sem nauðsynlegt er að lagfæra og líka þann ramma sem hér er verið að tala um svo að upplýsingum um þá sem hafa á einhvern máta brotið af sér sé hægt að vísa til viðkomandi stjórnvalda sem fara með þau mál, eins og segir í þessu frumvarpi með þeim breytingum sem fram hafa komið.

Ég vil taka fram að ég er mjög sátt við þær breytingar sem allsherjarnefnd leggur til núna við 3. umr. Ég kom upp í andsvari við hv. þm. Birgi Ármannsson og ræddi aðeins við hann um ákvæði í c-lið við 9. gr. um vernd uppljóstrara. Það er nokkuð sem ég sjálf hafði ekki velt sérstaklega mikið fyrir mér, en ég tel að þetta ákvæði sé til mikilla bóta og geti skipt geysilega miklu máli við að upplýsa mál sem getur reynst erfitt að sanna. Þarna er verið að gefa fólki tækifæri þótt það hafi að einhverju leyti tekið þátt í broti að koma fram og upplýsa það og bera þá væntanlega vitni fyrir dómstólum um það sem ekki fór samkvæmt lögum.

Ég mundi raunar vilja beina því til allsherjarnefndar að hún hefði frumkvæði að því að móta almenna löggjöf um vernd uppljóstrara. Í nefndarálitinu er nefnt að þetta hafi verið sett í lög um embætti sérstaks saksóknara. Þetta var líka í löggjöf varðandi rannsóknarnefnd Alþingis sem átti að komast að því hver væri sannleikurinn um aðdraganda efnahagshrunsins sem við erum enn þá að fást við afleiðingarnar af. Í þessu ákvæði er sérstaklega talað um upplýsingar eða gögn sem tengjast refsiverðu broti í opinberri stjórnsýslu eða broti á opinberum starfsskyldum. Ég mundi telja fyllstu ástæðu í okkar litla kunningjasamfélagi, þar sem það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fólk að upplýsa um brot sem það að einhverju leyti hefur tekið þátt í vegna þrýstings frá vinnuveitanda sínum eða jafnvel samfélaginu, að hafa slíkt ákvæði er varða alvarleg refsiverð brot að möguleiki sé fyrir þessa einstaklinga að koma fram og láta lögreglu og ákæruvaldinu upplýsingar í té.

Ég vil benda á eitt atriði sem gæti gagnast mjög varðandi vernd uppljóstrara. Það er brot á fiskveiðistjórninni. Talað hefur verið um að það geti verið ákveðið vandamál fyrir sjómenn sem eru beittir þrýstingi til að taka þátt í brottkasti að tilkynna brotið. Vernd uppljóstrara gæfi þeim möguleika á að koma þeim upplýsingum á framfæri. Eins og við vitum getur verið mjög erfitt fyrir uppljóstrara að lifa áfram í samfélagi sínu og jafnvel fá störf.

Mér skilst líka að í hinni svokölluðu „whistleblower“-löggjöf í Bandaríkjunum fái uppljóstrarinn jafnvel einhverjar greiðslur þannig að honum er að vissu leyti umbunað fyrir að upplýsa um meiri háttar brot. Það hefur verið rætt um það hér á landi hvort við ættum að setja slíka almenna löggjöf, en það hefur enn sem komið er bara verið rætt. Nú sjáum við ákveðin fordæmi þar sem þetta er þriðja löggjöfin í framhaldi af hruninu þar sem við setjum inn ákvæði um vernd uppljóstrara.

Í nefndarálitinu sjálfu kemur fram, með leyfi forseta:

„að með slíku ákvæði sé vikið frá ákvæðum réttarfarslaga um að sækja menn til saka fyrir brot en að rökin sem búi að baki slíku ákvæði eru þau að brýnir almannahagsmunir geti krafist þess að ákveðið verði að falla frá saksókn. Sönnunarstaðan geti verið erfið og rök hafi verið færð fyrir því að framburður einstaklinga sem liggja sjálfir undir grun geti gegnt mikilvægu hlutverki til að tryggja sönnun á refsiverðri háttsemi og að hagsmunirnir af því að fá slík brot upplýst geti verið mun meiri en hagsmunir af því að viðkomandi uppljóstrari sæti ákæru.“

Ég vona svo sannarlega að allsherjarnefnd taki til sérstakrar skoðunar hvort ekki eigi að vinna almenna löggjöf um uppljóstranir.

Eitt af því sem ég ræddi að mig minnir við 2. umr. voru skilyrði formanna nefndanna. Í starfi þingmannanefndarinnar svokölluðu ræddum við töluvert um rannsóknarnefndir og hvernig löggjöf um rannsóknarnefndir er háttað í öðrum löndum. Þar var bent á rannsóknarnefndir í Danmörku, að þar hefðu dómarar getað sinnt formennskunni eða stjórnað þessum rannsóknarréttum eins og þeir kalla það hjá sér. Þeir tóku síðan ákvörðun um að breyta því fyrirkomulagi af því að of mikill bragur þótti vera að því að menn litu á niðurstöður rannsóknarnefnda sem dóm. Að mínu mati er mjög mikilvægt að hafa það í huga að niðurstaða rannsóknarnefndar er ekki dómur, heldur er verið að safna saman upplýsingum og koma þeim á framfæri við almenning og viðeigandi yfirvöld sem geta síðan unnið áfram með málið og tekið ákvörðun um hvort ákæra eigi eða ekki. Það eru þá viðkomandi dómstólar sem dæma.

Þetta er eitt af því sem maður fann svolítið fyrir í umræðunni varðandi niðurstöðu þingmannanefndarinnar. Það virtist vera ákveðinn misskilningur, þ.e. skilningur fólks á niðurstöðu bæði rannsóknarnefndar Alþingis og Alþingis var að einhverju leyti sá að verið væri að dæma í málinu.

Ég held að mikilvægt sé að hafa það í huga að í frumvarpinu er verið að tala um að þeir sem gegna formennsku þurfi að uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara, ekki að þeir eigi fyrst og fremst að vera dómarar heldur uppfylla sambærileg skilyrði. Ég hef margoft bent á, ef menn lesa um skilyrði héraðsdómara, að við höfum sett í löggjöfina varðandi dómstóla að einstaklingur verði að vera með háskólapróf og hafa starfað að lágmarki í þrjú ár sem alþingismaður eða stundað málflutningsstörf að staðaldri eða gegnt lögfræðistörfum að aðalstarfi hjá ríkinu eða sveitarfélagi til að uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Það er mjög mikilvægt fyrir forsætisnefnd að hafa þetta í huga og gæta mjög vel að því þegar formenn eru skipaðir og þeir sem starfa í nefndinni að enginn vafi leiki á hæfi viðkomandi, jafnframt þarf að forðast pólitíska skipan þessara einstaklinga.

Ég sé ekki formann allsherjarnefndar, hann hefur brugðið sér aðeins frá, en það væri mjög áhugavert að heyra frá hv. þm. Róberti Marshall hvort hann telji að með þeim breytingum sem lagðar eru til á 5. og 6. gr., eða í stað 6. gr. komi þrjár nýjar greinar, 7.–9 gr., að skilgreiningin á því hver sé til rannsóknar sé nógu skýr. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að það sé eins skýrt í þessum texta og hægt er. Ef viðkomandi er skilgreindur svo að hann sé undir rannsókn þýðir það að gerðar eru ákveðnar kröfur til nefndarinnar. Samkvæmt þessum breytingum á nefndin rétt á að kalla eftir þeim gögnum sem hún telur nauðsynlegt að fá til að vinna vinnuna sína og kallað einstaklinga til skýrslutöku. Síðan er verið að setja ákveðin réttindi í lögin fyrir þá sem eru til rannsóknar. Sá sem er til rannsóknar á þá rétt á að fá aðstoðarmann að eigin vali á öllum stigum rannsóknar. Ef rök mæla sérstaklega með því getur nefndin ákveðið að kostnaður við störf aðstoðarmannsins skuli greiddur af nefndinni. Þessir einstaklingar eiga líka rétt á, samkvæmt þeim breytingum sem koma hérna fram og eru raunar í samræmi við þá hugsun sem var í frumvarpinu upprunalega, en það er verið að endurraða þessu, í 7. gr. sem kemur í staðinn fyrir 3. málsgrein, með leyfi forseta:

„Að skýrslutöku og gagnaöflun lokinni skal þeim sem til rannsóknar er og ætla má að sætt geti ábyrgð, sbr. 3. og 7. mgr. 5. gr., gert kleift að tjá sig um þá málavexti og lagatúlkun sem rannsóknarnefnd íhugar að fjalla um í skýrslu sinni. Nefndin veitir viðkomandi hæfilegan frest til að gera skriflega athugasemd við þessi atriði.“

Þetta er mjög mikilvægt, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson fór í gegnum í ræðu sinni áðan. Þetta er forsenda þess að við gætum mannréttinda þeirra sem þurfa að undirgangast þá rannsókn sem við ályktum um hér á Alþingi.

Ég vil líka að ákveðnu marki taka undir þær ábendingar sem komu fram um fundarstjórn forseta frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að við veljum vel þau efnisatriði sem við felum rannsóknarnefndum. Þetta er íþyngjandi, kostnaðarsamt og því verða að vera mjög brýnar ástæður fyrir því að við ákveðum að setja á stofn rannsóknarnefnd. Með þessum lögum erum við að gefa þessum rannsóknarnefndum miklar valdheimildir. Við verðum að vera varkár með þau efnistök sem við felum rannsóknarnefndum.

Við höfum þegar samþykkt hér á Alþingi 63:0 að fara í tvær rannsóknir í framhaldi af rannsókn á orsökum og aðdraganda bankahrunsins. Önnur ályktunin fjallar um rannsókn á orsökum þess að sparisjóðakerfið hrundi hér á landi, en hin snýr að rannsókn á lífeyrissjóðunum. Þótt lífeyrissjóðirnir hafi ekki tapað jafnmiklum fjármunum og margar aðrar fjármálastofnanir töpuðu þeir samt gífurlegum fjármunum. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni skiptir miklu máli þegar við skipum þessar rannsóknarnefndir að við leitum sannleikans aftur í fortíðina og fáum líka leiðbeiningar um hvert við eigum að stefna hvað varðar framtíðina. Ég held að það sé sérstaklega brýnt varðandi rannsóknirnar tvær sem ég nefndi. Hvernig gat það gerst að fyrsti bankinn eða fyrsta fjármálastofnunin sem fór á hausinn var lítill sparisjóður á Vesturlandi? Hvernig stóð á því að við gátum ekki gætt betur að hagsmunum (Forseti hringir.) lífeyrisþega í gegnum þá löggjöf og þann ramma sem við bjuggum til utan um lífeyrissjóðina okkar?