139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

rannsóknarnefndir.

348. mál
[14:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé hægt að segja annað um þetta mál, frumvarp til laga um rannsóknarnefndir, en að í það hafi verið lögð gríðarlega mikil vinna í allsherjarnefnd. Ég get sagt fyrir mína parta að þegar málið kom fyrst fram hafði ég um það mjög miklar efasemdir. Ég taldi að frumvarpið væri þannig úr garði gert að það næði ekki þeim tilgangi sem að var stefnt, þ.e. að skipa rannsóknarnefndir á grundvelli 39. gr. stjórnarskrárinnar til að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varða, að slíkar rannsóknir mundu skila tilætluðum árangri sem að væri stefnt með skipan slíkra rannsóknarnefnda.

Milli 2. og 3. umr. var málið hins vegar tekið til meðferðar í nefndinni. Eins og sjá má á þingskjali 1498, sem eru breytingartillögur frá allsherjarnefnd, má í rauninni segja að frumvarpið hafi verið endurskrifað nánast frá grunni, a.m.k. í þeim þáttum þess sem mestu máli skipta, af nefndinni milli 2. og 3. umr. Ekki er á neinn hallað þegar sagt er að þær breytingartillögur sem birtast í þingskjalinu og nefndin stendur að eru fyrst og fremst til komnar vegna ábendinga frá Róberti R. Spanó, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, og frá Tryggva Gunnarssyni, umboðsmanni Alþingis, sem einnig sat í rannsóknarnefnd Alþingis.

Það var nefnilega þannig að sá galli var á málinu að þegar það var smíðað í upphafi virtist frumvarpshöfundum hafa yfirsést að hafa samband við þá aðila á Íslandi sem mesta reynslu höfðu af því að starfa í rannsóknarnefndum, t.d. þá sem áttu sæti í rannsóknarnefnd Alþingis eða hafa staðið að rannsóknum annarra mála eins og í Breiðavíkurmálinu eða öðrum sambærilegum málum.

Milli 2. og 3. umr. um málið var á þessu gerð bragarbót og Róbert Spanó prófessor og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, komu að málinu og lögðu tillögur til nefndarinnar sem að miklum eða stórum hluta birtast í þeim breytingartillögum sem hér liggja frammi á einum fjórum þéttskrifuðum blaðsíðum. Ég verð að segja að ég held að það hafi verið málinu mjög til framdráttar að fá þá menn til skrafs og ráðagerða til að gera þær breytingar sem nauðsynlegar voru á málinu til þess að hugsunin á bak við það næði þeim markmiðum sem að var stefnt.

Ég held að halda megi því fram — af því að það er oft þannig á Alþingi, og sérstaklega á þessum síðustu dögum, að menn takast harkalega á um stór og mikil deilumál sem til umfjöllunar eru bæði í þingsal og í nefndum — að nefndin sem slík hafi staðið vel að vinnslu málsins og staðið saman að því að reyna að koma því í þann búning að ásættanlegur væri fyrir þingið og fyrir þau markmið sem því er ætlað að ná. Það sýnir sig í því að flestir nefndarmanna standa að framhaldsnefndarálitinu sem fyrir liggur og breytingartillögurnar stafa frá allsherjarnefnd allri. Um þetta náðist mikil sátt og ég vil fyrir mína parta þakka forustu nefndarinnar fyrir ljómandi fínt samstarf í tengslum við vinnslu málsins og öðrum nefndarmönnum sömuleiðis. Ég held að niðurstaðan eins og hún liggur fyrir núna sé mjög ásættanleg og þess eðlis að á hana sé hægt að fallast.

Það er nefnilega svo að þegar verið er að smíða löggjöf eins og þessa er geysilega mikilvægt að vel sé vandað til verka. Við sjáum það í tengslum við það mál sem nú er til meðferðar fyrir landsdómi að slík mál geta auðvitað orðið mjög persónuleg fyrir þá sem í hlut eiga. Það skiptir miklu máli að rannsóknarandlagið sé vel skilgreint og það skiptir gríðarlega miklu að réttaröryggissjónarmið þeirra sem rannsóknin beinist að séu tryggð þannig að á mönnum sé ekki brotinn réttur hvað það varðar.

Hin hliðin á peningnum er hins vegar sú að ef menn ætla sér að reyna að tryggja það að rannsóknir eins og þessar skili einhverjum árangri verða þær nefndir sem standa að slíkum rannsóknum að hafa nægar rannsóknarheimildir til að geta upplýst um mál, hafa aðgang að gögnum sem snúa að þeim ákvörðunum sem máli skipta o.s.frv. Frumvarpið, eins og það lítur út núna eftir vinnslu allsherjarnefndar, tel ég að endurspegli þessi sjónarmið og nái að halda utan um þau meginsjónarmið.

Við leggjum til breytingu í 2. lið breytingartillagnanna sem mælir fyrir um að formaður rannsóknarnefndar skuli uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Um þetta var ágreiningur framan af í nefndinni, a.m.k. mismunandi sjónarmið, um hvort ástæða væri til að gera þann áskilnað að formaður rannsóknarnefndar uppfyllti starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Niðurstaðan varð sú að fara þá leið og ég verð að segja það fyrir mig að ég var allan tímann þeirrar skoðunar að þannig ætti að halda á málinu. Það er ekki vegna þess að ég hafi einhverja ofurtrú á lögfræðingum af því að ég er lögfræðingur sjálfur og hafi vantrú á öðrum starfsstéttum, síður en svo. En það verður bara að hafa í huga að rannsóknir eins og þessar snúa að gríðarlegum mikilvægum þáttum réttarfars og stjórnsýslu sem mikilvægt er að þeir sem hafa með slíkar rannsóknir að gera hafi einhverja reynslu og þekkingu á beitingu þeirra reglna sem um er að ræða hverju sinni. Annars er mjög mikil hætta á því að undir rannsókn mála verði réttarspjöll sem kunni að leiða til þess að rannsóknir ónýtist af því að ekki hefur verið farið rétt eftir ákvæðum stjórnsýslulaga eða ákvæðum réttarfarslaga sem kann þá að leiða til þess að talið verði að á mönnum séu brotin mannréttindi o.s.frv. Ég held því að það hafi verið mjög til bóta að setja ákvæðið inn.

Í breytingartillögunum er síðan mikilvægur kafli um öflun gagna og upplýsinga. Þetta eru í rauninni ákvæði sem skorti að miklu leyti í frumvarpið eins og það var útbúið í upphafi. Gagnaöflunar- og upplýsingaöflunarákvæði breytingartillagnanna eru vissulega víðtæk og þau veita rannsóknarnefndunum gríðarlega víðtækar heimildir til að rannsaka mál, tryggja þeim aðgang að öllum sköpuðum hlutum sem varðar þá rannsókn sem þeim er falið að ráðast í. En við töldum mikilvægt að þannig yrði málum fyrir komið í frumvarpinu til að tryggja að rannsóknirnar næðu markmiðum sínum, að menn kæmust að hinu sanna hvað varðar þá rannsókn sem í hlut á hverju sinni. Það segir sig auðvitað sjálft að tilgangslaust er að hefja rannsókn þegar málsmeðferðarreglur eru með þeim hætti að rannsóknarnefnd hefur engin úrræði eða tæki til þess að komast í þau gögn sem skipta lykilmáli varðandi þá rannsókn sem um er að ræða hverju sinni.

Síðan er annar mjög mikilvægur þáttur í breytingartillögunum, en var ekki í upphaflegu frumvarpi, sem snýr að því að það hefur afleiðingar fyrir þann sem kýs að eiga ekki samstarf við rannsóknarnefndina, mæta til skýrslutöku eða afhenda nefndinni þau gögn sem óskað er eftir. Það hefur þær afleiðingar að nefndin getur óskað eftir því að héraðsdómari kveðji mann fyrir dóm til að bera vitni eða að hægt verði að úrskurða um að tiltekin gögn verði afhent. Þetta skiptir auðvitað gríðarlegu miklu í heildarsamhengi þessa máls.

Síðan er það ákvæðið sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi áðan og snýr að verndun uppljóstrara. Hún fjallaði um svokallaða „whistleblower“-löggjöf í Bandaríkjunum. Ég tel að það geti skipt verulegu máli að hafa þá heimild í lögunum um rannsóknarnefndir sem þarna er kveðið á um. Ákvæðið er í rauninni mjög sambærilegt ákvæðum í lögum um embætti sérstaks saksóknara og í lögum um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna. Þetta ákvæði snýst um að ef einstaklingur hefur frumkvæði að því að láta rannsóknarnefnd í té upplýsingar eða gögn sem tengjast stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, opinberri stofnun, fyrirtæki, móður- eða dótturfyrirtæki þess eða fyrirtækjum sem það er í viðskiptum við eða stjórnendum þeirra og óskar eftir því að hann sæti ekki ákæru, þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að refsiverðu broti hans sjálfs, er rannsóknarnefnd heimilt að óska eftir því við ríkissaksóknara að hann ákveði að hlutaðeigandi sæti ekki ákæru. Menn geta með öðrum orðum ekki treyst því 100% að komast hjá því að vera látnir sæta refsiábyrgð eða vera ákærðir ef þeir kjósa að upplýsa um eitthvað sem miður hefur farið. En þó er þarna veitt heimild fyrir rannsóknarnefndina að leggja það til við saksóknara að þannig sé málum háttað.

Af því að hv. þingmaður nefndi möguleika á því, hugsanlega í náinni framtíð, að haga málum með þeim hætti að rétt væri að greiða uppljóstrurum einhverjar fjárhæðir fyrir að koma upp um aðra, ég held að það sé eitthvað sem við þurfum a.m.k. ekki á að halda við núverandi aðstæður í tengslum við uppljóstrara. Aðalumbunin sem uppljóstrarinn er að sækjast eftir er að losna sjálfur undan því að verða ákærður fyrir þátt sinn í því broti sem hann kýs að upplýsa um. Að svo komnu máli tel ég að varhugavert sé að vera að stíga skrefið miklu lengra að þessu sinni, ég tel að meiri reynsla þurfi að fást á framkvæmd og túlkun þessara ákvæða áður en svo stórt skref er stigið.

Virðulegi forseti. Ég styð frumvarp það sem hér er til meðferðar en ég ber þá von í brjósti að þegar það hefur verið samþykkt ráðist menn í að fara að afgreiða frá þinginu þau mál sem mestu skipta og varða almenning miklu og lúta að því hvernig haldið hefur verið á málum í tengslum við og í aðdraganda efnahagshrunsins. Þá á ég við þá tillögu til þingsályktunar sem ég hef áður nefnt í umræðunni og er um rannsókn á Icesave-málinu. Það mál er þess eðlis að of margar vísbendingar eru um að menn hafi haldið með röngum hætti á málum í embættisfærslum sínum, (Forseti hringir.) að hægt sé að komast hjá því að í þá rannsókn verði ráðist.