139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér nefndarálit frá iðnaðarnefnd um frumvarp til laga um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Haraldsdóttur og Guðrúnu Þorleifsdóttur frá iðnaðarráðuneyti, Unni Halldórsdóttur frá Ferðamálasamtökum Íslands, Kristínu Huld Sigurðardóttur og Kristin Magnússon frá Fornleifavernd ríkisins, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Önnu Kristínu Ólafsdóttur og Hjalta J. Guðmundsson frá Umhverfisstofnun, Ólöfu Ýri Atladóttur frá Ferðamálastofu og Helgu Haraldsdóttur frá ferðamálaráði. Þá bárust umsagnir frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga, Byggðastofnun, ferðamálaráði, Ferðamálasamtökum Íslands, Ferðamálastofu, Fornleifavernd ríkisins, Orkustofnun, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Steinari Berg, Umhverfisstofnun, þjóðgarðsverðinum á Þingvöllum og Þjóðminjasafni Íslands.

Frumvarpið felur í sér að stofnaður verði Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Með fjármagni úr sjóðnum skal leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. Sjóðnum er einnig ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks í því skyni að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði. Fjármagni úr sjóðnum skal annars vegar varið til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í opinberri eigu eða á náttúruverndarsvæðum, hins vegar til framkvæmda sem varða öryggi ferðamanna og verndun náttúru á ferðamannastöðum í eigu opinberra aðila jafnt sem einkaaðila.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi fjármálaráðherra um farþegagjald og gistináttagjald en því er ætlað að afla aukinna tekna til að standa undir framlögum til Framkvæmdasjóðsins, þjóðgarða og friðlýstra svæða. Þar er lagt til að farþegagjald og gistináttagjald renni í ríkissjóð en sú fjárhæð sem ráðstafað verður af fjárlögum til Framkvæmdasjóðsins mun endurspegla 3/5 af innheimtu farþegagjaldi og gistináttagjaldi.

Nefndin vill leggja á það skýra áherslu að þeir fjármunir sem koma til greiðslu úr Framkvæmdasjóðnum eigi að fara til framkvæmda en ekki reksturs og er það í samræmi við markmiðsákvæði frumvarpsins, og á þetta vil ég leggja mikla áherslu. Nefndin vill einnig árétta að mikilvægt er að samþætta menningarleg, fagurfræðileg og náttúrufræðileg sjónarmið þegar horft verður til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru, sem og til framkvæmda er varða öryggi ferðamanna.

Fram komu hjá umsagnaraðila athugasemdir um að þörf væri fyrir aukna vöktun á ástandi og þróun náttúru á ferðamannastöðum hér á landi, ekki síst á þeim svæðum sem eru friðlýst. Nefndin telur það ekki samræmast markmiði frumvarpsins að vöktun verði fjármögnuð af því fé sem rennur til Framkvæmdasjóðsins. Í vöktun felast ýmsar grunnrannsóknir sem margar hverjar eru í höndum opinberra stofnana og telur nefndin óheppilegt að blanda fjármögnun á slíku saman við ráðstöfun úr sjóði sem þessum.

Heimildir til framlaga til einkaaðila úr Framkvæmdasjóðnum takmarkast við framkvæmdir sem varða öryggi og verndun náttúru á ferðamannastöðum, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Af þessu leiðir að framlögum úr Framkvæmdasjóðnum er ekki ætlað að styrkja atvinnuuppbyggingu einkaaðila í ferðaþjónustu enda einskorðast framlög til þeirra við framangreind öryggis- og/eða verndunarverkefni. Hér er því ekki um samkeppnissjóð að ræða. Fjallað er um ríkisaðstoð í 61.–64. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Í frumvarpinu kemur fram að ekki er gert ráð fyrir því að framlög úr sjóðnum skilgreinist sem ríkisaðstoð. Engu síður leitaði iðnaðarráðuneytið eftir óformlegu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) varðandi framlög úr Framkvæmdasjóðnum og kannaði afstöðu ESA til þess hvort tilkynna þyrfti löggjöfina með formlegum hætti. ESA vísaði til minniháttarreglunnar en hún felur það í sér að styrkir undir ákveðinni lágmarksfjárhæð teljast ekki ógna samkeppni. Benti ESA á að ef framlög til einkaaðila falla undir þá reglu er ekki um tilkynningarskylt kerfi að ræða. Sú fjárhæð sem nú gildir er 200.000 evrur samtals á þremur árum. Í þessu felst að samanlagðir styrkir frá hinu opinbera á þremur árum geta verið allt að 200.000 evrur til einkaaðila. Rétt er að benda á að hér er átt við framlög úr Framkvæmdasjóði, menningarsamningi og vaxtarsamningi o.s.frv. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða ber að endurskoða lögin fyrir árslok 2013. Það er mat iðnaðarráðuneytisins og nefndarinnar að framlög til ferðamannastaða í opinberri eigu verði fyrirferðarmeiri en framlög til einkaaðila á fyrstu starfsárum sjóðsins. Sökum þessa er raunhæft að miða við að framlög til einkaaðila verði ekki hærri en minniháttarreglan kveður á um fyrstu þrjú árin.

Fram kemur í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins að framlög til einkaaðila séu alltaf háð því skilyrði að viðkomandi ferðamannastaður sé ávallt opinn almenningi og án endurgjalds. Sú gagnrýni kom fram hjá umsagnaraðilum að styrkúthlutanir úr sjóðnum fyrir einkaaðila væru skilyrtar en hið sama ætti ekki við um opinbera aðila. Hér væri því verið að mismuna landeigendum eftir því hvort um sé að ræða opinbera aðila eða einkaaðila þar sem sambærileg krafa er ekki gerð vegna ferðamannastaða í opinberri eigu. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að síðari málsliður 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins verði felldur brott.

Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins skipar iðnaðarráðherra fjóra fulltrúa í stjórn Framkvæmdasjóðsins. Nefndin vill benda á að mikilvægt er að stjórn Framkvæmdasjóðs ferðaþjónustunnar taki tillit til gildandi ferðamálaáætlunar, áætlunar um ferðamennsku á hálendinu, náttúruverndaráætlunar, menningarstefnu í mannvirkjagerð og byggðaáætlunar.

Fram kemur í 3. gr. frumvarpsins að árlegar tekjur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða verði framlag ríkissjóðs sem nánar er ákveðið í fjárlögum, vextir af fé sjóðsins, sem og aðrar tekjur. Miðað skal við að framlagið endurspegli um 60% þeirra tekna sem ríkissjóður hefur af farþegagjaldi og gistináttagjaldi. Nokkur gagnrýni kom fram hjá umsagnaraðilum á þessa ráðstöfun og var það skoðun þeirra að farþegagjald og gistináttagjald ættu að renna óskert í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Fram kemur í athugasemdum við frumvarp til laga um farþegagjald og gistináttagjald að þær tekjur sem innheimtast samkvæmt lögunum muni útdeilast á fjárlögum að 3/5 hlutum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og 2/5 hlutum til ráðstöfunar fyrir þjóðgarða og friðlýst svæði. Nokkrar umræður sköpuðust um málið. Það er skilningur nefndarinnar að þeir fjármunir sem koma til úthlutunar vegna farþegagjalds og gistináttagjalds, hvort sem það er til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eða til ráðstöfunar fyrir þjóðgarða og friðlýst svæði, eigi alfarið að renna til framkvæmda og uppbyggingar en ekki til reksturs, og það er áréttað hér enn einu sinni. Nefndin vill benda á að friðlýst svæði eru 102 talsins og talið er brýnt að ráðast í verulegar úrbætur á mörgum þeirra. Með hliðsjón af þessu, sem og bráðabirgðaákvæði frumvarpsins, en þar er gert ráð fyrir endurskoðun laganna í árslok 2013, leggur nefndin til að þessi skipting farþegagjalds og gistináttagjalds standi óbreytt en leggur til breytingar á ákvæðinu þessu til skýringar.

Nefndin leggur til þá breytingu auk þessa að lögin öðlist þegar gildi í staðinn fyrir 1. september eins og stóð í frumvarpinu

Virðulegi forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem er að finna í nefndarálitinu og ég fer ekki hér yfir en vísa til þingskjalsins. Þetta mál var tekið út úr iðnaðarnefnd 18. maí sl.

Undir nefndarálitið skrifa auk þess sem hér stendur, formanns og framsögumanns iðnaðarnefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, með fyrirvara, og Gunnar Bragi Sveinsson.

Þrír hv. þingmenn, Margrét Tryggvadóttir, Jón Gunnarsson og Þráinn Bertelsson, voru fjarverandi afgreiðslu málsins.