139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði um að fjölmargir komu á fund nefndarinnar. Þar kom þetta sjónarmið fram og var rætt hvort stíga ætti þetta skref. Mig minnir að helstu vandkvæðin við að innheimta slíkt gjald, allt frá því að menn nefndu að koma mætti fyrir gjaldtökukassa einhvers staðar þar sem menn gætu lagt til frjáls framlög eða hvort það væri launuð þjónusta og þá þyrfti hún að vera allan sólarhringinn. Það varð frjó og góð umræða um það en menn enduðu í því sem kemur fram í frumvarpinu um gistináttagjaldið og því sem sett er inn í áætlunina.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, ég lagði þunga áherslu á að nefndin hafnaði hugmyndum eða beiðni um að við mundum veita fé til vöktunar. Síðan tók nefndin það fram tvisvar ef ekki þrisvar í nefndarálitinu að féð færi til framkvæmda og uppbyggingar en alls ekki til rekstrar. Það er gert vegna þess að brennt barn forðast eldinn, getum við sagt. Oft er það þannig þegar svona skattur er kominn á að þess er freistað að lauma einhverju af honum til rekstrar. Ég ítreka það sem kemur fram hér og var samdóma álit allra nefndarmanna, enda er málið afgreitt úr nefnd í sátt og samlyndi, að það sé gert á þennan hátt. Það er þá okkar þingmanna við fjárlagagerð og annað að fylgja því eftir að ekki yrði seilst inn í þennan sjóð vegna framkvæmda og uppbyggingar.