139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir dæmið sem hann nefnir hér. Ég er ekki frá því að það hafi verið nefnt annaðhvort á prívatfundum eða í nefndinni. Hv. þingmaður lýsir aðstæðum vel; þarna þurfti leiðsögn, þarna þurfti hjálma, og þá er gott að það sé manneskja á staðnum sem getur þá rukkað fyrir þjónustuna til að dæmið gangi upp. Það er gott að heyra að ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, skuli hafa borgað gjaldið möglunarlaust.

Þetta er dæmi sem ég hygg að eigi eftir að koma upp á fleiri stöðum á landinu. Við þekkjum það auðvitað hvernig það er þegar við förum sjálf á svona staði í öðrum löndum að víðast hvar er rukkað eitthvert gjald sem maður vonar að komi viðkomandi stöðum alltaf til góða. Við sjáum það líka að þetta er gert í ýmsum söfnum úti um land þó að upphæðin sé lág, alveg sama hvort menn koma á menningartengd, þjónustutengd eða annars konar söfn.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir orð hans um málið, þau eru ágætisveganesti inn í það sem seinna kemur. Aðalatriðið er annars vegar Framkvæmdasjóður ferðamanna og hins vegar ferðamálaáætlunin sem rædd var í dag. Ég hygg að við báðir, ég og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, séum ákaflega ánægðir með það sem þar var samþykkt. Ég komst ekki til að tala um það í stuttri atkvæðaskýringu í dag að það var eitt af því sem iðnaðarnefnd setti inn í ferðamálaáætlunina, fyrst talað er um að lengja ferðamannatímabilið og áætlanir eru um það. Nefndarmenn voru sammála um að bæta því við að það yrði þá um land allt og var líka lögð áhersla á það í nefndarálitinu. Það er auðvitað það sem við ætlum okkur, að efla ferðaþjónustu um land allt en ekki eingöngu á einstökum svæðum vegna þess að það er hluti af því að dreifa ferðamönnum um landið og nýta betur þá fjárfestingu sem lagt hefur verið í víðs vegar um landið.