139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp sem felur í sér að stofnaður verði Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og að með fjármögnun úr sjóðnum skuli leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. Með sjóðnum er einnig áætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks í því skyni að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Áður en ég hef mál mitt almennt um þetta frumvarp og þessar breytingar langar mig að lesa bréf sem okkur þingmönnum Norðausturkjördæmis barst frá ábúendum og eigendum Helgafells, með leyfi forseta:

„Að gefnu tilefni höfum við ákveðið að skrifa Ferðamálastofu og samgönguyfirvöldum bréf vegna stóraukins ferðamannastraums um land okkar, Helgafell. Nú hefur jörðin Helgafell verið í eign okkar fjölskyldu í meira en 120 ár og við erum hreykin af og glöð yfir því að fólk leggi leið sína hingað til að ganga á Helgafell, njóta náttúrufegurðar og sögu staðarins. Aldrei höfum við krafist greiðslu eða meinað fólki að ganga á fellið og viljum forðast það í lengstu lög en allt hefur sín þolmörk með stórauknum ferðamannastraumi. Hlaðast upp nýir moldarstígar upp fellið sem mikil lýti eru að.

Vegurinn heim að bænum er margra áratuga malarvegur sem var til að mynda aldrei heflaður eða rykbundinn í fyrrasumar og liggur hann nánast við bæjardyrnar. Smábörn á heimilinu geta vart verið úti við vegna reykmakkar frá veginum og ekki er hægt að hafa glugga og dyr opin yfir sumartímann af sömu ástæðu. Höldum við að fáir eða engir mundu sætta sig við að búa við svona aðstæður og er það lágmarkskrafa okkar miðað við vægi ferðamannastraumsins fyrir þjóðfélagið að úr þessu verði bætt fyrir næsta sumar með varanlegum aðgerðum sem við teljum að ekki þurfi að kosta mikið. Lausleg könnun okkar sýnir að um 20–30 þús. manns fara um eign okkar á hverju sumri. Langlundargeð okkar er að þrotum komið og við svo búið verður ekki unað lengur án úrbóta. Við sjáum okkur ekkert annað fært í stöðunni en að girða fyrir fellið og meina fólki aðgengi að því þótt það sé okkur þvert um geð því að eins og áður kom fram erum við stolt af því að fólk vilji njóta staðarins. En þetta er heimili okkar.

Með ósk um skjót og greinargóð svör.“

Ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég les þetta bréf upp er sú að ég lít á þetta sem áminningu til okkar. Það er ekki sjálfgefið að við getum farið fram með þeim hætti sem við höfum gert á undanförnum árum.

Þetta fólk, ábúendur og eigendur á Helgafelli á Snæfellsnesi, er búið að sýna einstakt langlundargeð. Staðurinn hefur að sjálfsögðu gríðarlega mikla sögu og náttúrufegurðin er mikil. Nú koma til landsins um 600 þús. ferðamenn og væntingar standa til að fjöldi ferðamanna verði 1 milljón og þá verðum við að taka svona skilaboð eins og frá þessu ágæta fólki sem alvarlega áminningu um að við verðum að bregðast við og breyta því sem við erum að gera.

Með þessum lögum, ef frumvarpið verður samþykkt á þessu þingi sem ég vonast til og tel víst að verði gert, getum við einmitt brugðist við svona aðstæðum. Þetta ágæta fólk er ekki að biðja um einhverjar stórar framkvæmdir, þetta eru smávægilegar upphæðir, sérstaklega í ljósi þess hversu mikilvægt það er að þessi staður verði áfram opinn ferðamönnum og þeim sem vilja koma á svæðið, bæði vegna merkrar sögu sinnar og eins náttúrufegurðar. Þess vegna fagna ég líka sérstaklega, eins og ég kom að í andsvari við hv. þm. Kristján Möller, að það skuli vera hnykkt á því í nefndarálitinu að hvorki eigi að nota þetta til að greiða fyrir vöktun né rekstur, þetta fari til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Það er mjög mikilvægt.

Það sem ég vil líka ræða aðeins og tel eiga fullt erindi í umræðuna á þingi er hvort við eigum að skoða það að taka sérstakt gjald þegar ferðamannastaðir eru heimsóttir, þekktir staðir hvort sem er vegna sögu eða náttúrufegurðar, eins og gert er nánast alls staðar í heiminum.

Við verðum að taka þessa umræðu því að við getum ekki gengið á þessar auðlindir, jafnvel skemmt þær og það varanlega. Ég tel mjög mikilvægt að við skoðum það. Í því ljósi langar mig að rifja upp það mikla og góða starf sem hefur verið unnið í kringum Vatnshelli á Snæfellsnesi. Eins og alþjóð veit hefur augnlæknir sem heitir Árni Stefánsson verið mikill hellarannsóknamaður og látið sér mjög annt um að varðveita hella og þá menningu og náttúrufegurð sem tengist þeim. Hann hefur ásamt mörgum aðilum, heimamönnum mörgum hverjum og líka öðru fólki, staðið þar fyrir mjög merku starfi við uppbyggingu sem hefur staðið í ein tvö ár.

Í fyrrasumar var opnað aðgengi fyrir ferðamenn til að komast í hellinn. Þá hafði í fyrsta lagi verið slæmt aðgengi og slysahætta og í öðru lagi skemmir fólk oft þegar það fer niður í svona náttúruminjar. Fólk gerir það ekki endilega viljandi en það tekur með sér einhverja steina til minja um að hafa farið þarna niður og skemmir þá eins og til dæmis þennan helli. Það er líka ágætt að rifja upp mikilvægi þessa starfs sem þarna var unnið með fjölda manns með þennan einstakling í fararbroddi, Árna Stefánsson sem ég nefndi áðan, og þá fékk þjóðgarðurinn Snæfellsjökull í fyrra í fyrsta sinn frá því að hann var stofnaður stofnfjárframlag frá þinginu. Það dugði aðeins fyrir brotabroti af kostnaðinum við uppbyggingu þessa verkefnis. Allir þarna unnu í sjálfboðavinnu, hvort sem það voru verktakar eða einstaklingar sem fóru þangað helgi eftir helgi og mokuðu upp úr hellinum með fötum. Það var mokað um 60 tonnum af drullu upp úr botninum á hellinum. Þetta gerðu áhugasamir einstaklingar sem vildu varðveita þessar miklu náttúruminjar.

Ég fylgdist töluvert með þessu verki. Þó að ég legði ekki neitt til þess sjálfur með því að mæta þar til vinnu vakti þetta athygli mína og ég var dálítið hugsi yfir því þegar til stóð, og það var gert, að selja aðgang að hellinum. Þeir sem vildu fara ofan í hellinn gátu farið niður á auglýstum tímum en þá undir leiðsögn og þurftu að greiða fyrir það sérstakt gjald. Það þurfti að standa undir þeim starfsmanni sem leiðbeindi fólki og sagði söguna, það voru skaffaðir hjálmar, af öryggisatriðum að sjálfsögðu, og síðast en ekki síst þurfti að passa að fólk gengi þannig um að það skemmdi ekki þessar náttúruminjar.

Ég spurðist fyrir um það eftir sumarið hvernig fólk hefði tekið í gjaldtökuna. Þarna komu nokkur þúsund manns og ekki einn einasti ferðamaður, hvorki erlendur né innlendur, gerði athugasemd við það að þurfa að greiða fyrir að fara ofan í hellinn. Ekki einn einasti gerði athugasemd, allir greiddu bara sitt gjald eins og við Íslendingar erum vanir að gera þegar við förum eitthvað annað. Þá þykir okkur sjálfsagt að greiða gjald fyrir að skoða ferðamannastaði eða söfn. Það er reyndar gert á Íslandi líka, menn greiða fyrir að fara inn á söfn. Þetta finnst mér, virðulegi forseti, að við þurfum að ræða dálítið frekar í þinginu og þróa. Það er kostnaður fólginn í því að hafa starfsmann í að selja inn en það er gríðarlegt öryggi í því líka til að vernda svæðið og ekki síst er þá hægt að nota gjaldið til uppbyggingar á svæðinu.

Núna er því miður mikið atvinnuleysi á Íslandi. Þetta er kannski eitt af þeim verkefnum sem væri hægt að skoða sérstaklega, að fara í það átaksverkefni að láta fólk eða unga krakka, eða hvernig sem það er, fá vinnu við að rukka inn og kenna þeim þá söguna í leiðinni og þá ábyrgð að umgangast náttúruna. Það er nefnilega ekki alltaf nóg að tala um það, það verður líka að sýna það í verki. Ég tel að við þurfum að ræða þetta á þessum grunni líka, einmitt til að mæta þeim aukna ferðamannastraumi sem vonandi verður á næstu árum. Þetta getur komið harkalega í bakið á okkur. Ef við hugsum ekki um þetta getur þetta skemmst varanlega. Það yrði að sjálfsögðu mjög dapurlegt.

Margir hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar tala um að þeir hafi sérstakan áhuga á því að vernda náttúruna og þá verða þeir líka að sýna það í verki. Þegar sveitarfélögin á Snæfellsnesi voru í forustu fyrir Staðardagskrá 21 voru það ekki vinstri menn sem stýrðu þeim, það voru allt sjálfstæðismenn. (Gripið fram í.) Það er ágætt að rifja það aðeins upp. (Utanrrh.: Ekki Skúli Al.) Ekki Skúli Alexandersson, kallar hæstv. utanríkisráðherra fram í. Nei, en sá ágæti maður hætti fyrir nokkuð löngu í bæjarstjórn í Snæfellsbæ. Hann var lengi í bæjarstjórninni og stóð sig þar með mikilli prýði (Gripið fram í.) eins og á hinu háa Alþingi þegar hann sat hér með hæstv. utanríkisráðherra.

Það er ágætt að rifja þetta upp og við þurfum að vera ófeimin við að taka þessa umræðu til þess að vernda náttúrufegurðina. Fullt af fólki leggur mikið af mörkum til þess og okkur ber skylda til að nýta það. Mig langar að rifja það upp líka, af því að hæstv. utanríkisráðherra labbar í salinn og kallar fram í, að hann barðist fyrir því og kom því í verk að stofnaður yrði þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Honum skal þakkað það mikið og vel. (Gripið fram í.) Hann var upphafsmaðurinn að því verki og það var ekki fyrr en í fyrra í fyrsta sinn, þ.e. árið 2010, sem var sett eitthvert smáframlag af hálfu ríkisins í þann merka þjóðgarð. (Utanrrh.: Það var til skammar.) Það var til skammar, það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra, hvernig að því var staðið. Það er hins vegar staðreyndin og þannig var það. Hins vegar hafa margir einstaklingar, þar á meðal sá sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi áðan, Skúli Alexandersson, farið fyrir hópi fólks og lagt mikið af mörkum til að byggja upp það merka svæði sem er í þjóðgarðinum.

Að lokum, frú forseti, fagna ég þessu máli og sérstaklega enn og aftur því sem hv. þm. Kristján L. Möller lagði svo mikla áherslu á í ræðu sinni áðan, það að við skyldum nota þann pening sem kemur inn í Framkvæmdasjóðinn til uppbyggingar en ekki í rekstur og ekki í vöktun þannig að hann fari ekki í hítina. Við þurfum hins vegar að ræða mun frekar á Alþingi um hvernig við ætlum að standa að uppbyggingu og varðveislu ferðamannastaða í framtíðinni.