139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður flutti hér mjög snjalla ræðu og þekkir söguna ákaflega vel á Snæfellsnesi. Ég er náttúrlega sammála hverju orði sem hann sagði. Það hefur verið þinginu til skammar að ekki skuli hafa verið veitt fé í ríkari mæli til að byggja upp þennan einstaka þjóðgarð á Snæfellsnesi.

Þegar maður horfir til sögunnar sér maður margt sem ég og hv. þingmaður gætum af lært. Hv. þingmaður nefndi Skúla Alexandersson, sem hér var eitt sinn á dögum með okkur í þinginu. Eins og hv. þingmaður veit var Skúli óþreytandi fyrir hönd Snæfellinga að byggja upp bæði þjóðgarðinn, ferðamennsku og alls konar skilning á umhverfisvernd. Hann var ekki einn í því — það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að þar lögðu margir góðir sjálfstæðismenn drjúga hönd að verki — og sérstaklega vil ég minnast eins, Guðlaugs heitins Bergmanns. Það er nú kannski tilefni þess að ég kem hér upp að ljúka lofsorði á samstarf þeirra tveggja, Guðlaugs Bergmanns og Skúla Alexanderssonar, á sínum vængnum hvor í pólitíkinni en unnu feykilega vel saman. Og miðað við það hvernig ástandið er á þinginu í ýmsum stærri málum þá tel ég að menn eins og ég og hv. þingmaður ættum að láta þetta verða okkur að dæmi og taka heldur höndum saman um ýmis hin stærri mál sem liggja óleyst og lítt bætt hjá garði og vinna að þeim í anda þessara tveggja heiðursmanna.