139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir andsvarið. Þegar við vorum í sjávarútvegsumræðunni kom hæstv. ráðherra hér nokkrum sinnum og mærði mikið framsóknarmennina í þeirri umræðu. Nú er hann farinn að mæra mig sem sjálfstæðismann og því fagna ég sérstaklega. Þetta held ég að sýni í raun og veru ástandið á stjórnarheimilinu.

Hæstv. ráðherra kom réttilega inn á það sem ég nefndi í ræðu minni áðan, framlag einstaklinga til svæðanna til uppbyggingar byggðanna. Ég nefndi þar fyrrverandi þingmann og sveitunga minn, Skúla Alexandersson, sem hefur lagt mikið til slíkra verka. Ég hef starfað með honum mjög lengi og mér er minnisstætt að hafa farið margar ferðir með honum t.d. á vegum Lions-klúbbsins þar sem hann hefur stjórnað okkur af mikilli röggsemi og við höfum bara hlýtt því sem hann hefur sagt í flestum tilfellum þegar við höfum verið að leggja göngustíga og annað.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi líka það merka samstarf sem var á milli Guðlaugs heitins Bergmanns og Skúla Alexanderssonar sem urðu miklir samherjar í þessum málum. Ég nefndi það einmitt í ræðu minni áðan og hefði átt að gera það betur að þegar sveitarfélögin á Snæfellsnesi tóku forustuna í Staðardagskrárvinnunni og allt sem tengdist henni var það fyrst og fremst fyrir framlag Guðlaugs heitins Bergmanns og Guðrúnar Bergmann konu. Þau leiddu það samstarf algerlega og stýrðu okkur sem sátu í sveitarstjórnunum. Það var með það eins og þegar Skúli Alexandersson stýrði okkur í Lions-klúbbnum að þar hlýddum við að sjálfsögðu. En það merkilega við þetta var, af því að maður þekkir það af reynslunni, að þetta var allt gert í sjálfboðavinnu. Hefðu sveitarfélögin á Snæfellsnesi farið í þessa vegferð án þess að njóta liðsinnis þeirra heiðurshjóna Guðlaugs heitins Bergmanns og Guðrúnar Bergmann hefði það, að mínu viti, kostað sveitarfélögin tugi milljóna. Þess vegna er mjög mikilvægt, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði líka réttilega, að virkja kraftana þegar leiðirnar liggja saman en ekki í sitt hvora áttina. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt hvort sem það er í þessum málum eða öðrum.