139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:45]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru merkilegar og jafnvel ögrandi spurningar sem hæstv. ráðherra ber fram í pontu Alþingis.

Ég veit ekki hvort það brýtur jafnræðisreglu að sleppa sumum svæðum landsins við þennan skatt og öðrum ekki en vel má vera að svo sé. Almennt séð horfi ég á þessi mál með augum jafnaðarmannsins og vil að gjöld verði þau sömu frá einu svæði til annars. En það má fyllilega skoða hvort hægt er að beita þessu innan ársins til að nota skattkerfið, sem er í rauninni ekkert annað en jöfnunartæki, til að dreifa ferðamönnum betur yfir árið. Þar eru gríðarlegir hagsmunir í húfi.

Við erum einfaldlega að vannýta þessa auðlind sem ferðaþjónustan er vegna þess að við tökum á móti erlendum ferðamönnum á stuttum tíma, í reynd á aðeins sex, sjö vikum yfir hásumarið, en aðrar þjóðir hafa lagt á sig gríðarlegt átak til að dreifa þessu betur. Ég veit ekki betur en að Finnar, sem hafa staðið sig afskaplega vel í þessum málum á síðustu 20 árum, séu nú komnir með 60% erlendra ferðamanna inn á axlir og á háveturinn. Það tók þá 20 ár að snúa þeirri þróun við. Ég veit ekki hvort þeir hafi gert það með því að verðleggja veturinn minna en hásumarið en engu að síður hefur þeim tekist það. En það hefur líka gerst vegna þess að þeir hafa fjölgað áfangastöðum, þeir hafa fjölgað viðfangsefnum í ferðaþjónustunni og stálu t.d. íslenska jólasveininum yfir til Finnlands, eins og frægt er, sem á nú lögheimili í því ágæta landi en ekki á Íslandi.