139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki veit ég hvort hv. þingmaður var með síðustu orðum sínum að ögra ríkisstjórninni til að efna til ófriðar við Finna, ekki verð ég partur af því.

En ég vildi leggja þetta inn í umræðuna vegna þess að ég hef verið talsmaður þessa. Ég hef verið talsmaður þess að ef menn ætla á annað borð að taka upp einhvers konar gjald á ferðalanga inn í landið, hvort heldur það er gistináttagjald eða annað, eigi menn að freista þess að haga því þannig að það nái þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Markmiðin eru tvenn sem allir hafa lýst fylgi við. Í fyrsta lagi að reyna að beina ferðamönnunum út á land og í öðru lagi að reyna að beina þeim á þá tíma ársins sem eru utan háannatímans.

Nú verð ég að vísu að segja að ég tel að eitt af því sem ferðaþjónustunni hefur tekist mjög vel upp með á síðustu árum er akkúrat að lengja ferðamannatímann. Það hefur orðið umtalsverð aukning í báða enda síðustu árin. Við vitum að á sumum pörtum landsins er allt fullt um háveturinn og það meira að segja svo að ef menn fara á dimmri vetrarnóttu Djúpið og þurfa athvarf að nóttu til í stórhríð og byl er t.d. opið allan ársins hring lítið hótel í Heydölum í Mjóafirði, þar sem undirritaður setti, reyndar sem ráðherra, brú yfir en það er önnur saga.

Mönnum er því að takast þetta. Ég held að við sem setjum lög, t.d. um skattlagningu, getum gert okkar til þess að aðstoða við þá þróun með því að haga skattlagningu þannig að hún ýti á eftir jákvæðri þróun.

Fyrst ég hef tíma finnst mér líka að hv. þingmaður ætti að sjá sóma sinn í því að setja almennilegan veg yfir Vatnsleysuháls út á Látrabjarg því að það eru (Forseti hringir.) tveir staðir sem fólk þyrstir í að komast á en komast bara ekki alltaf, að minnsta kosti ekki á vetrum.