139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar í máli sem lýtur að gjaldeyrishöftum og er að finna á þskj. 1612. Á því áliti eru auk mín hv. þingmenn Magnús Orri Schram, Mörður Árnason, Þuríður Backman og Auður Lilja Erlingsdóttir.

Um er að ræða frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sem fylgir eftir því bráðabirgðaákvæði nr. 1 sem sett var við gjaldeyrislögin frá 1992 í framhaldi af efnahagshruninu á Íslandi og þeim reglum sem Seðlabankinn setti á grundvelli laga um gjaldeyrismál, um gjaldeyrisviðskipti, og hafa verið í gildi um margra missira skeið og falið í sér margháttaðar takmarkanir á athafna- og viðskiptafrelsi manna og út af fyrir sig friðhelgi einkalífs.

Í ljósi þess að bráðabirgðaákvæðið, sem var tímasett með hliðsjón af tímasetningu efnahagsáætlunarinnar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, rennur út 31. ágúst er nauðsynlegt að framlengja ákvæðið enda ljóst að jafnvel hinum bjartsýnustu og baráttuglöðustu um að afnema þessi höft, sem eru bæði fólki og fyrirtækjum til trafala í landinu, dettur ekki í hug að þeim verði aflétt fyrir þann tíma þannig að ljóst er að nauðsynlegt er að framlengja bráðabirgðaákvæðið. Samkvæmt áætlun Seðlabankans um afnám gjaldeyrishaftanna er gert ráð fyrir því að svigrúm verði út árið 2015 til að ná því markmiði til fulls í áföngum, en sú áætlun var samþykkt á fundi ríkisstjórnar Íslands hinn 25. mars sl.

Í ljósi þess hversu mikilvægt mál er á ferðinni, efnahagspólitískt í því að verið er að takmarka verulega viðskipti með lögeyri landsins og tilflutning fjármuna til og frá landinu, en einnig yfirfærslu og tilflutning á peningum milli innlendra og erlendra aðila, er nauðsynlegt að um þetta sé skýr lagarammi. Það var enn fremur talið nauðsynlegt að í ljósi þess að þær reglur sem Seðlabankinn hefur starfað eftir, og hafa takmarkað mjög athafnafrelsi manna og fyrirtækja og gengið nærri friðhelgi í sumum tilfellum, sé algerlega nauðsynlegt, þegar þau þurfa að vera við lýði um lengri tíma, að það sé löggjafinn sjálfur sem lögfesti þessar takmarkanir á frelsi manna og taki afstöðu til hverrar og einnar takmörkunar, meðal annars þeirra sem lúta að ferðamannagjaldeyri og öðru slíku.

Það er af umfjöllun nefndarinnar um málið að segja að enginn ágreiningur var um það meðal þeirra fjölmörgu umsagnaraðila sem gáfu skriflegar umsagnir um málið, og eins hinna sem komu fyrir nefndina, að gríðarlega brýnt er fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf að efla hagvöxt og uppbyggingu í landinu, að létta þessum höftum af í áföngum og á sem skemmstum tíma. Hvað raunsætt er í því efni — þar var hins vegar nokkur áherslumunur á milli aðila og má segja að það hafi verið allt frá því að unnt ætti að vera að létta höftunum af þegar á næsta ári, árinu 2012, og fram til þess sem frumvarpið segir, til ársloka 2015, og eitthvað þar á milli.

Þá var einnig um það rætt hvort lagaramminn væri of rúmur. Það er augljóst að í lögum um gjaldeyrismál hefur Seðlabankinn umtalsverðan sveigjanleika til verslunar og viðskipta með gjaldeyri. Hann hefur þær heimildir, hefur starfað undir þeim. Við höfum byggt inn í þessa þætti talsverðan sveigjanleika fyrir stjórnvöld og það er ekki tillaga okkar í meiri hlutanum að skerða hann í neinu.

Það var einnig gagnrýnt fyrir nefndinni að ekki lægju fyrir nægilegar rannsóknir á snjóhengjunni sem talað er um, nærfellt 500 milljörðum kr. sem kynnu að vilja, að einhverjum hluta að minnsta kosti, komast úr landi og verða að erlendri mynt og skapa ákveðinn þrýsting á gengi krónunnar. En það var álit sumra umsagnaraðila að ekki lægju fyrir nægilega ítarlegar rannsóknir á því hversu óþolinmótt fé væri á ferðinni, hverju af því mætti reyna að halda í í landinu og hvað mundi óhjákvæmilega leita strax út. Það er álit okkar að í meginatriðum muni á það reyna í þeim gjaldeyrisuppboðum sem Seðlabankinn hefur hafið og við sjáum fyrstu niðurstöður úr einmitt í þessari viku. Þau verða spennandi vísbending um á hvaða verði menn eru tilbúnir til, á slíkum uppboðum, að kaupa íslenska krónu og hversu lágt það gengi verður frá því skráða gengi sem við búum við í dag.

Það er ekki tillaga nefndarinnar að stytta þann tíma sem ætlaður er til afnáms haftanna í lagaramma þessum. Það er hins vegar tillaga okkar að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þurfi reglulega að koma fyrir þingið og gera grein fyrir áætluninni, stöðu einstakra áfanga í henni. Þannig gefst þinginu tækifæri til að endurskoða málið og taka til efnislegrar umfjöllunar reglulega. Ef færi gefst til að gera þetta á skemmri tíma en ramminn er settur til er ekkert sjálfsagðara en að grípa það tækifæri.

Við gerum auk þess tillögur um ýmsar aðrar breytingar á málinu. Þær lúta að refsiheimildarákvæðum í b-grein meðal annars en sömuleiðis um að falla frá kröfum um að í ferðamannagjaldeyri sé um að ræða eigið fé viðkomandi enda leggur slíkt allt of miklar rannsóknarskyldur á herðar fjármálafyrirtækjum. Sömuleiðis hafa ákvæði sem lúta að nokkuð ströngum skilyrðum um meðferð ferðamannagjaldeyris sem ekki hefur verið notaður í ferð manna erlendis og annað þess háttar verið felld á brott, lagað og bætt. Ég treysti því að góð samstaða sé um þær efnisbreytingar sem á málinu eru þó að enn kunni að vera skiptar skoðanir um það með hvaða hætti tímaramminn í gjaldeyrishöftunum er settur og hversu bjartsýn við megum vera á að geta brotist út úr þeim hratt og vel og að gengi krónunnar fari að styrkjast eins og margir spáaðilar hafa gefið til kynna að íslenskt efnahags- og atvinnulíf kunni að eiga innstæður fyrir á næstu missirum.