139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:21]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vísaði í að sárgrætilegt væri fyrir Samfylkinguna sjálfa að þurfa að leggja það til að taka upp gjaldeyrishöft því að eins og allir vita er Samfylkingin með það á stefnuskrá sinni að ganga í Evrópusambandið til að taka, eins og þingmaðurinn sagði, m.a. upp evru.

Það var mikið talað um að um leið og aðildarumsóknin að Evrópusambandinu yrði lögð inn mundi gengi krónunnar styrkjast og við gætum séð glytta í evruna. Ekkert af þessu hefur ræst og nú eru tvö ár að verða liðin. Því spyr ég þingmanninn: Er þetta hluti af því ferli sem Íslendingar eru nú í gegn vilja þjóðarinnar, að koma Íslandi í Evrópusambandið, því að svona langur tími á framlengingu hafta er mjög óeðlilegur, sérstaklega í ljósi þess að um hreint og klárt brot gegn EES-samningnum er að ræða, eina brotið sem Ísland hefur orðið uppvíst að frá hruni?