139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, því er fljótsvarað, þetta er ekki hluti af neinu aðildarferli að Evrópusambandinu, langt því frá. Það mál sem liggur fyrir endurspeglar einfaldlega þá staðreynd sem við verðum að horfast í augu við hér á löggjafarsamkomunni að Íslendingar misstu stjórn á gjaldeyrismálum sínum og efnahags- og atvinnumálum sínum með þeim afleiðingum að við erum ekki í færum til þess að verja gjaldmiðilinn með fullnægjandi hætti og þar með lífskjör fólksins í landinu ef gjaldmiðillinn á að sigla óvarinn um markaðshöf heimsins. Við erum því nauðbeygð til að setja skorður við því að hve miklu marki megi eiga viðskipti með þennan lögeyri vegna þess að ef við gæfum viðskiptin frjáls er einfaldlega einboðið að hann mundi hrynja í verði þar sem mjög margir mundu leita út úr íslensku efnahagslífi með krónustöður (Forseti hringir.) sínar og það mundi hafa neikvæð áhrif fyrir verðbólgu og lífskjör í landinu almennt.