139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu að spurt er um þetta vegna þess að það frumvarp sem liggur nú fyrir byggir m.a. á áætlun sem Seðlabanki og efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafa sent frá sér um afnám gjaldeyrishafta árið 2015. Nú hygg ég að flestir geti verið um það sammála að við munum ekki hafa tekið upp evruna árið 2015 þannig að mér finnst í þessu felast ákveðin mótsögn. Annars vegar er sagt: Við erum með áætlun um að afnema gjaldeyrishöftin fyrir 2015, eins og málin liggja. Hins vegar er sagt: Við munum trúlega búa við einhver gjaldeyrishöft þangað til við höfum tekið upp evruna, en það er ljóst að það verður ekki 2015.

Hæstv. forseti. Mér finnst að talsmenn Samfylkingarinnar þurfi að velja í þessu máli hvorn rökstuðninginn þeir ætla að nota. Mér finnst að þeir þurfi að gera það upp við sig hvort þeir ætla að halda því fram að hér munum við búa við gjaldeyrishöft nema við tökum upp evruna eftir fimm, sex ár eða hvort eitthvað er að marka þá áætlun um afnám (Forseti hringir.) gjaldeyrishafta sem þetta frumvarp byggir á.