139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[16:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ekki var þetta sannfærandi svar. Hér áðan heyrðum við um lausnir sem ganga út á töfrasprotann, evruna og ég veit ekki hvað og hvað, og allt á að batna, betra veður o.s.frv., þannig að mér finnst menn ekki vera að horfast í augu við raunveruleikann.

Raunveruleikinn er sá að við erum með vöruskiptajöfnuð sem er jákvæður, búinn að vera það eftir hrun, og við erum með innviðina sterka. Það vantar reyndar fjárfestingu, kannski vegna þess að við erum með gjaldeyrishöft. Gjaldeyrishöft geta nefnilega haldið gengi krónunnar niðri vegna þess að allir trúa því að hún sé aum og það sjá allir, það er búið að senda merki um það, að hún þarf gjaldeyrishöft sér til stuðnings. Um leið og menn setja á gjaldeyrishöft eru menn að lýsa því yfir að við séum með veikan gjaldmiðil.

Ég held að um leið og við tækjum það hugrakka skref að afnema gjaldeyrishöftin sem allra fyrst mundi hún styrkjast. (Gripið fram í.)