139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að víkja að fyrri spurningu hv. þingmanns aftur. Það er hárrétt athugað hjá henni að auðvitað aukast skuldir ríkissjóðs ef þeim skuldum sem um var rætt er bætt við. En þá ber þess að geta að þetta er náttúrlega fjármögnun og ríkissjóður þarf að fjármagna sig þannig að nettó eiga áhrifin ekki að vera nein.

Hvað varðar hærri fjármagnskostnað er algjörlega ljóst að með gjaldeyrishöftum er dýrara fyrir fyrirtæki að fjármagna sig, þau sem geta fjármagnað sig á lágum vöxtum erlendis í staðinn fyrir að borga háa vexti á Íslandi. Við skulum líka taka tillit til þess að vextir á Íslandi voru fyrir nokkrum mánuðum orðnir bærilega lágir en þeir eru á leiðinni upp og munu fara mjög hækkandi vegna þeirrar óðaverðbólgu sem er að byggjast upp (Forseti hringir.) í skjóli gjaldeyrishafta.