139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega greinargerð um gjaldeyrishöft og alla þeirra annmarka og alvarlegu áhrif fyrir atvinnu- og efnahagslíf þjóðarinnar. Ég er í flestum atriðum eindregið sammála þeirri lýsingu á skaðsemi hafta sem hv. þingmaður setti hér fram. Ég vil í því sambandi spyrja hann hvort einmitt þess vegna sé ekki rétt að við á þessum vettvangi, á löggjafarsamkomunni í heyranda hljóði, þannig að almenningur hafi tækifæri til að fylgjast með, fjöllum um þær reglur sem setja þarf í þessu efni, þær takmarkanir á frelsi og þau skaðlegu áhrif sem hér eru á ferðinni, og höfum þau til reglulegrar endurskoðunar og fáum þá ráðherra málaflokksins til að gera okkur grein fyrir stöðu mála. Höftin (Forseti hringir.) hafa svo alvarleg áhrif að við getum ekki bara látið framkvæmdarvaldinu og Seðlabankanum eftir að vera með þessi miklu inngrip í líf fólks og fyrirtækja.