139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Baldri Þórhallssyni fyrir fyrirspurnina um leið og ég býð hann velkominn á Alþingi. Við erum þá aftur orðnir kollegar, við vorum báðir prófessorar í háskólanum á sama tíma, en það er annað mál.

Hv. þingmaður segir að við höfum enga trú á íslensku krónunni. Það var ekki nákvæmlega það sem kom fram í máli mínu vegna þess að ég hef fulla trú á því að með réttri hagstjórn sé hægt að hafa íslensku krónuna. Ég veit að króna eða gjaldmiðill endurspeglar einfaldlega undirliggjandi hagstjórn, í góðri hagstjórn eru menn með góðan gjaldmiðil. Aftur á móti þegar menn eru komnir inn í myntbandalag getur farið fyrir þeim eins og Grikklandi, Portúgal, Spáni, Írlandi að menn eru með fastan gjaldmiðil en lélega hagstjórn og það kemur fram í miklu ójafnvægi í hagkerfinu eins og við erum að sjá í þeim löndum sem ég taldi hér upp.