139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Frú forseti. Í nefndaráliti mínu færi ég rök fyrir því hvers vegna ég hafna leið hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar um að festa í lög reglur Seðlabankans um fjármagnshöft. Ég tel að það sé nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning sem hefur verið í gangi áður en ég held áfram og skilgreina hvað í raun og veru átt er við með gjaldeyrishöftum eins og þau eru í dag hjá okkur. Gjaldeyrishöftin sem við búum við eru ekki þessi gömlu gjaldeyrishöft heldur fyrst og fremst fjármagnshöft sem takmarka útstreymi fjármagns. Fólki er frjálst að nota kreditkort sín til þess að eiga viðskipti með vörur og þjónustu þannig að þessi gjaldeyrishöft ná ekki til viðskipta með vörur og þjónustu eins og var hér áður fyrr.

Ástæður þess að ég hafna leið Samfylkingarinnar hvað það varðar að lögfesta reglur Seðlabankans um útstreymi fjármagns eru þrjár. Í fyrsta lagi að slík lögfesting dregur úr sveigjanleika við afnám haftanna og gerir þau varanlegri, en ég tel orðið löngu tímabært að fara að hefja afnám haftanna. Önnur ástæða fyrir því að ég hafna þessari lögfestingu er sú að hún ýtir undir óeðlileg afskipti okkar stjórnmálamanna, m.a. í hv. efnahags- og skattanefnd, af höftum Seðlabanka Íslands en það er okkar hlutverk að lögfesta í hvert skipti sem Seðlabankinn breytir reglum sínum um útstreymi fjármagns og það gefur okkur tækifæri til að setja inn það sem okkur þykir eðlilegt að takmarka sem þarf ekki endilega að vera af einhverjum efnahagshvötum. Þriðja ástæðan er sú að lögfestingin skerðir sjálfstæði Seðlabankans. Með lögum um Seðlabanka 2001 ákvað Alþingi að skilgreina markmið peningastefnunnar en veita Seðlabankanum sjálfstæði til að framkvæma peningastefnuna og framkvæmdin felst m.a. í viðskiptum á gjaldeyrismarkaði. Þannig að ef við lögfestum reglur Seðlabankans um fjármagnshöftin erum við búin að taka af Seðlabankanum hluta af þessu sjálfstæði varðandi framkvæmd peningastefnunnar.

Frú forseti. Ég hafna jafnframt leið margra sjálfstæðismanna eða leið sem margir sjálfstæðismenn hafa lagt til sem er sú að við förum í tafarlaust afnám gjaldeyrishafta. Við megum ekki gleyma því að þegar gjaldeyrishöftin voru sett í nóvember 2008 hafði gengi krónunnar fallið um 80% á árinu og í dag bíða að því er talið er 463 milljarðar eftir að komast út úr hagkerfinu. Þetta eru, eins og fram kom í umræðunum áðan, innstæður að hluta til eða rúmir 200 milljarðar og að hluta til skuldabréf þannig að um leið og við afnemum höftin algjörlega eru líkur á að bankar tæmist af innstæðum og margir vilji selja skuldabréf á skuldabréfamarkaði sem er ekki víst að m.a. ríkið og Íbúðalánasjóður geti keypt eða aðrir vilji kaupa.

Ef við afnemum gjaldeyrishöftin tafarlaust, eins og margir sjálfstæðismenn leggja til, og með þennan aflandskrónuvanda eru allar líkur á því að gengið muni hrynja eða lækka mjög mikið og gengislækkun þýðir á Íslandi verðbólguskot vegna þess að mjög hátt hlutfall innfluttra vara er í þeirri neyslukörfu sem notuð er til að mæla verðbólguhraðann. Sjálfstæðismenn vilja ekki afnema verðtrygginguna sem væri þá kannski ein leið til að draga úr áhrifum af slíku gengishruni ekki síst á lán heimilanna og fyrirtækja. Gengishrun eftir tafarlaust afnám gjaldeyrishafta mundi því þýða verulega hækkun höfuðstóls lána bæði fyrirtækja og heimila auk þess sem kaupmáttur heimila mundi rýrna og, frú forseti, þá mundum við ekki sjá tölur um það að 60 þúsund heimili ættu í erfiðleikum með að ná endum saman heldur miklu frekar 120 þúsund heimili eða langflest heimili landsins.

Frú forseti. Ég tel að það sé orðið löngu tímabært að hefja afnám haftanna og lagði m.a. til í nóvember 2008 að við tækjum upp skatt á útstreymi fjármagns. Ég lagði til m.a. í fjölmiðlum að við tækjum upp 30% skatt. Sú tillaga þótti mörgum afar einkennileg og hún var skotin niður strax þrátt fyrir að tillagan hafi ekki orðið til í kollinum á mér heldur byggðist fyrst og fremst á reynslu og aðgerðum annarra þjóða sem höfðu lent í fjármálakreppu, eins og Indónesía og Malasía sem tóku upp gjaldeyrishöft fyrst í formi boða og banna sem þeir breyttu mjög fljótlega yfir í skatt, mjög háan skatt sem var reyndar ekki nema um 30%, og buðu síðan þeim sem vildu komast út annaðhvort að borga þennan 30% skatt eða að lækka skattinn með því að fjárfesta í atvinnulífinu til nokkurra ára og lækka þannig skattinn.

Þessi hugmynd hefur því miður ekki átt upp á pallborðið hér á landi fyrr en þá kannski núna tveimur og hálfu ári eftir hrunið. Ástæðan fyrir því er sennilega sú að inni í hagkerfinu hér eru lokaðar mun hærri upphæðir en lokuðust inni í löndum eins og Malasíu og Indónesíu þegar gjaldeyrishöft voru sett á þar. Margir óttast að bara sú breyting að fara úr reglugerðarhöftum yfir í skattlagningu þýði mikinn þrýsting á krónuna þegar allir vilja fara út á sömu stundu.

Hverjir eru kostirnir við höft í formi skatts? Þeir eru að minnsta kosti þrír. Í fyrsta lagi dregur mjög hár skattur úr útstreymi út úr hagkerfinu. Það er líka hægt að nota skattinn til að tryggja atvinnulífinu ódýrt fjármagn og gera þá aflandskrónueigendum svipað tilboð og stjórnvöld í Indónesíu og Malasíu gerðu 1998 og 1999, þ.e. að bjóða lækkun á þessum skatti ef aflandskrónueigendur fjárfestu til fimm til tíu ára. Í þriðja lagi fyrir utan það að tempra útstreymið og leiða til þess að atvinnulífið fái ódýrt fjármagn getur svona skattur myndað mjög mikilvægan skattstofn fyrir ríkissjóð, og á þetta benti ég í nóvember 2008. Við vitum núna að munurinn á álandsgenginu og aflandsgenginu hefur verið mestur um 50% þannig að hægt er að reikna með að aflandskrónueigendurnir séu tilbúnir til að fara út á helmingsvirði, þannig að ríkissjóður gæti í raun og veru sett 50% skatt og þeir mundu þá fara út en ríkissjóður aflaði tekna sem næmu um 230 milljörðum. Þess má geta að hallinn í lok árs 2008 var um 200 milljarðar þannig að ef við hefðum gripið til þessa ráðs í lok árs 2008 hefðum við ekki þurft að hækka skatta og skera niður til að eyða hallanum á undanförnum tveimur árum.

Vandamálið við þessar aflandskrónur er að þær voru búnar til við lánveitingar á kaupum á bólueignum og þær bólueignir voru hlutabréf í ýmsum fyrirtækjum útrásarvíkinganna og líka fasteignir sem eignarhaldsfélög, mörg hver, keyptu. Nú hafa þessar eignir sem aflandskrónurnar voru notaðar til að fjármagna kaup á fallið í verði en aflandskrónurnar sjálfar hafa haldið verðgildi sínu, ekki síst vegna verðtryggingar á innstæðum og flestum innlendum skuldbindingum. Það er því mikið ójafnvægi í hagkerfinu milli virði þeirra eigna sem eru til staðar og virði innlendra skuldbindinga eins og aflandskrónanna. Þetta þarf að leiðrétta. Það þarf annaðhvort með skatti eða með mismunandi skiptigengi að færa verðmæti þessara aflandskróna niður og, frú forseti, þess vegna hugnast mér ekki sú skuldabréfaleið sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til vegna þess að hún felur ekki í sér neina rýrnun á verðmæti þessara aflandskróna eins og þarf að fara fram að mínu mati. Það er í sjálfu sér ekkert réttlæti í því að skuldabréfin sem gefin voru út og mynda þessar aflandskrónur haldi verðgildi sínu á sama tímabili og eignirnar hafa lækkað eða jafnvel hrunið í verði eins og gerðist með hlutabréfin. Einn kosturinn við þennan skatt er að við mundum þá hleypa þessum aflandskrónum út úr hagkerfinu á réttu virði sem ekki mundi nást með þessari skuldabréfaútgáfuleið fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd.

Ókostirnir við höft í formi skatts eru a.m.k. tveir. Aðalókosturinn er sá að menn stjórna ekki magninu með skattinum eins og menn gera þegar verið er með boð og bönn, þá tempra menn magnið sem fer inn á gjaldeyrismarkaðinn, og í raun og veru væri búið að banna þessum aflandskrónueigendum að fara inn á gjaldeyrismarkaðinn. En með skattinum er ekki hægt að segja við þá að þeir megi ekki fara þarna inn, heldur verða menn að reyna að tryggja að það fari bara lítill hluti af þeim inn á gjaldeyrismarkaðinn með því að hafa skattinn nógu háan og það veit enginn hversu hár hann þarf að vera til að það myndist ekki það mikill þrýstingur á krónuna að gengi hennar hrynji. Og það er þá aðalókosturinn og virðist vera það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er hræddastur við að það sé bara ekki til nógu hár skattur til að varna því gengi krónunnar hrynji um leið og afnámið hefst eða við skiptum úr boðum og bönnum yfir í skatt. Annar ókostur við höft í formi skatts er það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kallar fjölgengi, þá er í raun og veru verið að innleiða mismunandi gengi og mismuninn á eignum sem vilja fara út. Við erum t.d. þá að segja við aflandskrónueigendur að þeir geti farið á helmingi lægra verði en aðrir Íslendingar sem fara í ferðalög og það er mismunun og það getur varðhundur alþjóðafjármálamarkaðarins ekki sætt sig við eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er, sem hefur það hlutverk fyrst og fremst að tryggja frjálst flæði fjármagns á milli landa.

Seðlabankinn hefur reynt að koma til móts við þá gagnrýni sem hefur verið á að nota boð og höft til að takmarka útstreymi fjármagns og í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lagt til uppboðsmarkað. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist geta sætt sig við uppboðsmarkaðinn vegna þess að hann líkist einhverju sem heitir markaðsviðskipti en þeir virðast hafa ráðlagt Seðlabankanum að takmarka mjög þennan uppboðsmarkað og hann byrjar mjög smátt. Seðlabankinn auglýsti að það væru bara 15 milljarðar af erlendum gjaldeyri sem aflandskrónueigendur gætu keypt í fyrstu umferð sem er afskaplega lítið magn í ljósi þess að það eru 463 milljarðar sem vilja fara út. En þessi uppboðsmarkaður er þó jákvæð vísbending um að við séum á leið í átt að því að afnema gjaldeyrishöftin, þó að ég mundi vilja fara miklu hraðar í afnámið en þessi leið gefur til kynna, og við ættum að fá í gegnum þennan uppboðsmarkað, sérstaklega ef hann verður haldinn oft og þó að magnið sé lítið, vísbendingar um það hversu mikill þrýstingur er á krónuna. Ef þessi þrýstingur er svo mikill að flestir aflandskrónueigendur vilja fara út sem allra fyrst er alveg ljóst, frú forseti, að við þurfum virkilega að íhuga að taka upp nýjan gjaldmiðil vegna þess að annars þurfum við að búa hér við gjaldeyrishöft, ekki bara til ársins 2015 heldur mun lengur af því að við erum með allt of mikið af fjármagni inni í hagkerfinu sem vill fara út og íslensk heimili og íslensk fyrirtæki geta ekki tekið á sig gengishrunið sem því fylgir.

Hugmyndin að taka upp nýjan íslenskan gjaldmiðil er önnur hugmynd sem ég hef lagt fram og ekki bara ég heldur aðrir ágætir sérfræðingar, eins og Friðrik Jónsson. Hugmyndin hefur verið skotin niður eins og flestar nýjar hugmyndir á Íslandi. Ekkert nýtt. Það versta er að það tekur sennilega tvö ár þar til fólk sér ljósið og kemur til okkar og segir að við höfum haft rétt fyrir okkur eins og það er byrjað að gera núna varðandi skattinn á útstreymi fjármagns. (Gripið fram í.) Ég tala nú ekki um 20% leið framsóknarmanna. (Gripið fram í.) Þakka þér fyrir.

Þetta er sem sagt eitthvað sem ég tel að verði að skoða hvort við neyðumst ekki til að taka upp nýja krónu ef þrýstingurinn á þessum uppboðsmarkaði verður það mikill að fyrirsjáanlegt sé að við munum ekki losna við höftin 2015, og ég hvet reyndar til þess að það verði skoðað alvarlega. Það að taka upp nýjan gjaldmiðil kemur ekki í veg fyrir það við getum tekið upp evruna, svona til að róa samfylkingarfólkið sem ekki sést í þessum sal en situr hér og hlustar. En þetta er svona leið sem þarf að skoða ef eins og ég sagði áðan þrýstingurinn er allt of mikill á uppboðsmarkaðnum.

Frú forseti. Hvers vegna eru gjaldeyrishöft eða fjármagnshöft góð? Jú, það eru ýmsar ástæður fyrir því en aðalástæðan fyrir því að við þurftum að setja á gjaldeyrishöft í nóvember 2008 var sú að við þurftum að koma á stöðugu gengi en eins og margir muna rokkaði gengið töluvert á þessu tímabili. Það leit líka allt út fyrir að það væri enginn botn eða að gengislækkunin tæki engan enda.

Það sem gengisstöðugleiki gerir er að hann dregur úr verðbólgu og sérstaklega í íslenska hagkerfinu þar sem við byggjum neyslu okkar mjög mikið á innfluttum vörum. Okkur hefur tekist frá því að gengishöftin voru sett að ná verðbólgunni niður úr 17% í 3,4%. Seðlabankinn hefur líka lækkað stýrivexti sína úr 18%, þeir voru hækkaðir upp í 18% þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom inn til að styðja við gengi krónunnar en þessi vaxtalækkun úr 12% í 18% gerði lítið sem ekkert í því að styðja við gengið þannig að hún var okkur mjög dýr.

Hagfræðingar tala um í rannsóknum sínum á gjaldeyrishöftum að lægri vaxtakostnaður vegi upp viðskiptakostnaðinn af því að hafa höft. Fjármagnshöft þýða það að bæði fyrirtæki og einstaklingar þurfa að setja sig inn í reglurnar sem gilda um gjaldeyri eða fjármagnshreyfingar inn og út úr hagkerfinu og það tekur tíma og því fylgir þar af leiðandi það sem hagfræðingar kalla viðskiptakostnað en lægri vaxtakostnaður er yfirleitt meiri ávinningur en þessi kostnaður vegna haftanna.

Það sem ég vil segja að lokum er að ég tel afar mikilvægt að við hefjum afnám gjaldeyrishaftanna sem allra, allra fyrst og höfnum þessari leið Samfylkingarinnar að lögfesta gjaldeyrishöftin og gera þau þannig varanleg og setjum þess í stað upp áætlun um það hvernig megi afnema höftin. Ég fagna því mjög að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd hafa komið hér með hugmynd sem hefur verið á sveimi úti í samfélaginu. Þetta er hugmynd sem þarf að ræða betur, það er þegar kominn fram einn galli á henni, hún eykur skuldsetningu ríkissjóðs og mun þar af leiðandi lækka lánshæfismatið sem þýðir þá að ríkið þarf að fjármagna sig á hærri vaxtakostnaði. Það eru örugglega einhverjir kostir við þessa leið til að afnema gjaldeyrishöftin sem ég sé ekki á þessari stundu en umræða um þessa leið mun væntanlega leiða í ljós. Ég hef lagt til að við hefjum afnám gjaldeyrishaftanna með því að fara skattaleiðina. Það er alveg ljóst að við þurfum að hafa þennan skatt mjög háan og ég hef stundum talað um að við þyrftum að byrja ekki í 50% heldur jafnvel í 80% bara til að vera alveg viss um að það kæmi ekki of mikið magn af aflandskrónum inn á gjaldeyrismarkaðinn og gengið mundi hrynja. Síðan gætum við bara lækkað hann mjög fljótlega. Það er afar mikilvægt líka að vera með svona aðgerðir áður en við förum yfir í skattinn sem tryggja það að þessar aflandskrónur liggi ekki endalaust inni á bankabókum heldur fari til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi.

Frú forseti. Það eru örugglega til aðrar mögulegar leiðir. Íslendingar eru frjóir þegar loksins er hægt að fara að ræða sem þjóð um lausnir á efnahagsvanda okkar. Því miður hefur það verið þannig á undanförnum missirum að í stað þess að reyna að ræða okkur út úr vandanum hafa nýjar hugmyndir, sem hljóma öðruvísi í eyrum þeirra sem eru mótandi varðandi skoðanamyndun, verið skotnar í kaf áður en umræðan hefur í raun og veru tekið af stað. Það er mjög miður vegna þess að ég held að við gætum fundið góða leið til þess að afnema gjaldeyrishöftin sem byggir ekki bara á reynslu annarra þjóða heldur líka á hugmyndaauðgi okkar.