139. löggjafarþing — 143. fundur,  7. júní 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir prýðilegt nefndarálit þar sem hún gerir ágætlega grein fyrir skoðunum sínum á jafnumfangsmiklu máli og gjaldeyrishöftin eru. Til stuðnings hversu mikilvægt þetta grundvallarmál er að mínu viti komu fjögur álit úr nefndinni um það.

Mér sýnist því miður að þetta verði enn eitt málið þar sem stjórnarandstaðan þarf að halda uppi málefnalegum samræðum um þau álitamál sem hv. þingmaður fór yfir. Ég var að kynna mér mælendaskrána og með fullri virðingu fyrir hv. formanni nefndarinnar, hv. þm. Helga Hjörvar, hefði ég haldið að fleiri stjórnarliðar ættu að fara á mælendaskrá og tala fyrir nefndaráliti meiri hlutans.

Nú er ég sammála hv. þingmanni um að ekki verði hægt að afnema gjaldeyrishöftin með því að smella fingrum. Það er einfaldlega ekki hægt og ég tek undir með henni að kaflaskipta þurfi afnáminu með einhverjum hætti. Það held ég að eigi að gera með útboðum þar sem menn byrja þá líkt og hv. þingmaður talaði um að verðleggja það sem boðið er út með ákveðnum afföllum. Síðan þurfum við að komast að nánari niðurstöðu um hvernig það hlutfall mundi byrja.

Hv. þingmaður nefndi stóra málið þegar kemur að afléttingu haftanna, þeirra 463 milljarða sem eru útistandandi í aflandskrónum. Mér hefur fundist það tilfinnanlega skorta, sérstaklega hjá Seðlabankanum, að kanna hvaða þrýstingur er frá þessum aðilum að fara með krónurnar úr landi. Mér finnst að Seðlabankinn hafi ekki almennilega staðið sig í því hlutverki að gefa okkur yfirsýn yfir það hver staða málsins er. (Forseti hringir.) Hversu margir eru óþolinmóðir yfir þessu fé og hverjir eru einfaldlega þolinmóðir og nokkuð sáttir við stöðu sína?